Jafnari kynjahlutföll og minni nýliðun

Nýafstaðnar kosningar marka verulegar breytingar á landslagi sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Við þær fækkar sveitarfélögum í landshlutanum um tvö, með sameiningu Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar og sameiningu Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps. Við þá breytingu fækkar sveitarstjórnarfulltrúum í landshlutanum um 10, úr 45 í 35.

 

Ef litið er á samsetningu nýkjörinna sveitarstjórna þá eru konur nú 49% sveitarstjórnarfulltrúa og karlar 51%, samanborið við 44% konur og 56% karlar á nýliðnu kjörtímabili. Hæsta hlutfall kvenna í sveitarstjórn í landshlutanum er á Skagaströnd þar sem 80% sveitarstjórnarfulltrúa eru konur (fjórar af fimm). Lægst er það í Húnaþingi vestra þar sem 29% fulltrúa eru konur (tvær af sjö). Af 35 sveitarstjórnarfulltrúum í landshlutanum eru 54% þeirra nýliðar, samanborið við 67% á síðasta kjörtímabili. Með nýliðum er átt við aðalmenn sem ekki sátu kjörtímabilið á undan en í þeim hópi eru einhverjir sem eru að koma inn í sveitarstjórnir að nýju eftir hlé í eitt kjörtímabili eða meira. Nýliðunin er mest í í sameinuðu sveitarfélagi Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps en þar eru 67% fulltrúa nýir (sex af níu). Minnst er hún í Húnaþingi vestra þar sem 29% fulltrúa eru nýir í sveitarstjórn (tveir af sjö).

 

Starfsmenn SSNV óska nýkjörnum sveitarstjórnarmönnun til hamingju með kjörið og velfarnaðar í starfi. Við hlökkum til samstarfsins á kjörtímabilinu.