Hugur í ferðaþjónustunni á Norðurlandi vestra

Miðvikudaginn 3. desember s.l. boðuðu SSNV og Markaðsstofa Norðurlands til fundar í Miðgarði.  Kveikjan að fundi þessum var ákveðið ákall um fleiri ferðamöguleika vestan Tröllaskaga, sem fram kom  í lok septembermánaðar á vinnustofu Markaðsstofunnar með erlendum ferðaþjónustufyrirtækjum, sem standa að beina fluginu til á Akureyrar frá meginlandi Evrópu. Til þess að slík flug megi vaxa og dafna, einkum yfir vetrartímann, þarf landshlutinn að standa undir áhugaverðu framboði á þjónustu og afþreyingu. 

Á fundinum fóru fulltrúar Markaðsstofunnar yfir þá vinnu sem framundan er til að svara þessu kalli, sem á vissan hátt sækir fyrirmynd sína til Mývetninga og þeirra framgöngu í að sækja á þennan markað. Hér er fyrst um sinn um að ræða uppbyggingu á Skagafirði eins konar safnstöð, þar sem gestirnir hafa næturstað og leggja þaðan upp í dagsferðir um gjörvalt svæðið, eftir því sem þær eru í boði.   

Að auki kynnti Markaðsstofan þróunarverkefni, sem unnið er að í samvinnu við SSNV og snýr að þeim möguleikum, sem frekari uppbygging og samþætting ævintýraferðaþjónustu getur fært svæðinu með skírskotun í stefnumótunarvinnu, sem unnin var fyrir skemmstu. 

Upphaf fundarins var hins vegar helgað Sólmyrkavanum í ágúst á næsta ári, sem reyndar sést aðeins sem deildarmyrkvi á Norðurlandi vestra, en hætt er við að nokkur hluti þess mikli fjölda, sem búist er við kringum hann muni leggja leið sína hér um svæðið fyrir eða eftir þennan merka viðburð.  Þessu tengt hvatti fyrirlesarinn Sævar Helgi Bragason (Stjörnu-Sævar) til dáða með þá vinnu í myrkurtengdri ferðaþjónustu, sem verið hefur í gangi á svæðinu síðustu misseri.  

Ágætis mæting var á fundinum og fínustu umræður í tengslum við erindin. Til stendur að fylgja þessu eftir með vinnustofu í febrúar n.k., þar sem fulltrúar erlendu ferðaþjónustufyrirtækjanna sætu m.a. fyrir svörum.