Hnitsetning gönguleiða

Áhersluverkefni Sóknaráætlunar Norðurlands vestra um hnitsetningu gönguleiða  í landshlutanum verður framhaldið í sumar en á síðasta ári voru gengnar hátt í 40 gönguleiðir sem aðgengilegar eru á Wikiloc og á kortavefsjá SSNV. Jafnframt hefur gönguleiðunum verið deilt með Markaðsstofu Norðurlands vestra og munu valdar leiðir birtast á heimasíðu þeirra.  

 

Anton Scheel Birgisson hefur verið ráðinn til verkefnisins í sumar og hefur hann störf um miðjan júní. Er ráðningin hluti af átaksverkefni ríkisstjórnarinnar í sumarstörfum fyrir námsmenn. Anton stundar nám í klínískri sálfræði við háskólann í Árósum og áformar að ljúka námi vorið 2022. Hann er búsettur á Reykjum í Hrútafirði og starfaði áður m.a. fyrir Ungmennasamband Vestur-Húnvetninga, í Íþróttamiðstöðinni á Hvammstanga auk fjölbreyttra starfa í heilbrigðisþjónustu. Við bjóðum Anton velkominn til starfa og hlökkum til samstarfsins.

 

Í ár verður megin þungi þeirra leiða sem kortlagðar verða í Húnavatnssýslunum þar sem flestar gönguleiðir sem skráðar voru á síðasta ári voru í Skagafirði. Þegar liggur fyrir góður listi gönguleiða en við fögnum öllum ábendingum um áhugaverðar leiðir á netfangið ssnv@ssnv.is