Hin árvissa Prjónagleði trekkir að

Alls kyns námskeið voru í boði á Prjónagleði 2022, mynd fengin af vef Textílmiðstöðvarinnar.
Alls kyns námskeið voru í boði á Prjónagleði 2022, mynd fengin af vef Textílmiðstöðvarinnar.

Um helgina var Prjónagleðin haldin á Blönduósi í sjöunda sinn og að þessu sinni var meðal annars boðið upp á 25 fjölbreytt námskeið, ýmsa fyrirlestra og prjónatengda viðburði. Handlitarar, smáspunaverksmiður, handverksfólk og verslanir með garn og prjónatengdan varning seldu fjölbreyttar freistingar fyrir prjónafólk á glæsilegu markaðstorgi og tilkynnt var um sigurvegara í hönnunar- og prjónasamkeppni hátíðarinnar, en þemað í ár var Huldufólk samtímans.

Hátíðin hefur farið sístækkandi á liðnum árum samhliða því að Blönduós hefur verið að festa sig í sessi sem miðstöð hannyrða á landinu, þar sem hlúð hefur verið að rótum sögu og þróunar í textíl á Íslandi með þeim árangri að frjór jarðvegur hefur myndast til að skapa vaxtarreit textílvinnu og -hönnunar í fjölbreyttu og gróskumiklu samstarfi ýmissa stofnana.

Heimilisiðnaðarsafnið hefur verið starfrækt frá árinu 1976, en það voru konur innan raða Sambands Austur-Húnvetnskra kvenna sem lögðu grunninn að því. Safnið er opið alla daga í júní, júlí og ágúst og eftir samkomulagi á veturna. Safnið er eitt þriggja viðurkenndra safna landshlutans og þar er hugað að fræðslu, kennslu og rannsóknum auk þess sem tekið er á móti og unnið með rannsakendum á þessu sviði.

Þekkingarsetrið Textílmiðstöð Íslands, staðsett í Kvennaskólanum á Blönduósi, er alþjóðleg miðstöð öflugrar rannsóknar- og þróunarstarfssemi í textílframleiðslu, textíllistum og handverki í textíl. Jafnframt sinnir Textílmiðstöðin því hlutverki að bjóða upp á aðstöðu fyrir háskólanám og fullorðinsfræðslu með aðgengi að fjarfundabúnaði og próftöku í samstarfi við aðila háskóla og símenntunarstöðva. Í starfsemi Textílmiðstöðvarinnar er lögð áhersla á nýsköpunar-, þróunar- og samstarfsverkefni sem stuðla að atvinnuuppbyggingu í tengslum við textíl, menningu og sögu svæðisins með áherslu á umhverfisvernd og sjálfbærni.

Í Kvennaskólanum er einnig starfrækt alþjóðleg listamiðstöð í samstarfi við Textílmiðstöðina: Ós textíllistamiðstöð. Þar dvelja hverju sinni 8-10 listamenn, hönnuðir eða fræðafólk á sviði textíls, í það minnsta mánuð í senn. Gisti- og vinnuaðstaða er innifalin og býðst gestum að fá kynningu á áðurnefndu Heimilisiðnaðarsafni, Minjastofu Kvennaskólans og útsaumsverkefni Jóhönnu Erlu Pálmadóttur sem unnið hefur verið að í yfir áratug, þar sem Vatnsdæla er sögð á refli sem mun spanna 46 metra að verki loknu.

Síðast en ekki síst var fyrsta stafræna textílsmiðja landsins opnuð á Blönduósi fyrir ári, TextílLab. Það er rými sem allir geta nýtt sér, útbúið stafrænum tækjum sem tengjast textílvinnslu, eins og vefnaði, prjóni, þæfingu og útsaumi, t.d. stafrænum vefstól, prjónavél og útsaumsvél, nálaþæfingarvél, auk leiserskera og vínylprentara og -skera. TextílLab býður upp á frábæra aðstöðu til nýsköpunar og þróunar textíls í tengslum við sjálfbærni og hringrásarhagkerfi og lögð er áhersla á nýtingu innlendra hráefna.

Ofangreind starfsemi hefur öll með einum eða öðrum hætti hlotið styrk úr Uppbyggingarsjóði Sóknaráætlunar Norðurlands vestra eða sem áhersluverkefni Sóknaráætlunar og er rós í hnappagat landshlutans. SSNV óskar textílunnendum og aðstandendum hátíðarinnar til hamingju með vel heppnaða Prjónagleði 2022.

Mynd með frétt fengin af vef Textílmiðstöðvarinnar.