Góður innblástur inn í nýtt ferðaár - Ferðaþjónustuvikan 2025

Mynd tekin á Mannamótum af nokkrum ferðaþjónustuaðilum frá Norðurlandi vestra
Mynd tekin á Mannamótum af nokkrum ferðaþjónustuaðilum frá Norðurlandi vestra

Hinni árlegu Ferðaþjónustuviku, sem haldin er í Reykjavík í janúar ár hvert er nú nýlokið. Í vikunni koma ferðaþjónustuaðilar af öllu landinu saman á nokkrum sértækum viðburðum , sem gefa góðan innblástur inn í nýtt ferðaár. Tónninn var gefinn á Nýársmálstofu ferðaþjónustunnar þar sem nýr ráðherra greinarinnar Hanna Katrín Friðriksson ávarpaði gesti og KPMG kynnti niðurstöður árlegrar könnunar um stöðu og horfur í greininni, áður en Hjalti Einarsson hjá Datera  spáði í samkeppnishæfni hennar á nýju ári. Upptöku af málstofunni má finna hér

Dagur ábyrgrar ferðaþjónustu nýtur sífellt meiri athygli og hvatningarverðlaunin, sem veitt eru árlega fyrirtæki sem þykir skara fram úr í sínum sjálfbærnimálum, sannarlega hápunkturinn hér. Hér er vert að taka fram að fyrirtæki af öllum stærðargráðum eru tilnefnd til þessara verðlauna og gaman frá því að segja að öll þrjú tilnefndu fyrirtækin að þessu sinni eru mis gamalgróin fjölskyldufyrirtæki. Í ár var það fyrirtækið Guðmundur Jónasson ehf. - GJ Travel sem hlaut verðlaunin. Að auki voru tilnefnd fyrirtækin Midgard Adventure og Local Guide of Vatnajökull.

Ferðatæknimótið er síðan kjörið tækifæri fyrir þá sem vilja hitta þjónustuaðila sína þegar kemur að tæknihliðinni eða eru að líta til breytinga í þeim efnum. Stærsti hlutinn er hér vissulega tileinkaður bókunarkerfum en þar er ör þróun og mikilvægt að fylgjast með. Deginum lauk svo með viðburði, sem tileinkaður var öryggismálum í ferðaþjónustu, en ennþá þykir vanta nokkuð upp á að þau séu í fullkomnu lagi og þá sérstaklega sá hluti sem lýtur að skráningu slysa og óhappa. Hér þykir mikilvægt að vinna bragarbót á og er Ferðamálastofa að fara af stað með verkefni sem skilgreint var í nýrri Ferðamálaáætlun til 2030 og tekur á þessum málum.

Mannamótin eru svo auðvitað ákveðið hryggjarstykki í Ferðaþjónustuvikunni og út frá þátttakendafjölda lang stærsti viðburðurinn. Hann er jafnframt sá viðburður, sem flestir af okkar starfssvæði taka þátt í.

Á föstudagsmorgninum stóðu svo Samtök um söguferðaþjónustu fyrir hliðarviðburði þar sem fjallað var um farþega skemmtiferðaskipa og þýðingu þeirra fyrir sögu- og menningartengda ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Áhugaverðar kynningar úr öllum landshlutum sýndu fram á að vægi þessara farþega hefur aukist, en greinilegt að aukið samtal ferðaskipuleggjenda við áfangastaðina hefur skilað sér vel.