Fundur með stýrihópi stjórnarráðsins um byggðamál

Stjórn ásamt framkvæmdastjóra og verkefnisstjóra sóknaráætlunar hjá SSNV funduðu á dögunum með stýrihópi Stjórnarráðsins um byggðamál. Fundarefnið var staða sóknaráætlunar landshlutans og það helsta sem er á döfinni. Stýrihópurinn er skipaður fulltrúum allra ráðuneyta, ásamt fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og áheyrnarfulltrúum frá landshlutasamtökunum og Byggðastofnun. Hópurinn hefur það hlutverk að efla samhæfingu innan stjórnarráðsins í málefnum sem snúa að byggðamálum og tryggja virkt samráð við sveitarstjórnarstigið í þeim málaflokki.

 

Stýrihópurinn vinnur út frá þeirri skilgreiningu að byggðamál séu öll þau viðfangsefni sem hafa áhrif á lífsgæði og samkeppni landshluta, s.s. búsetu, atvinnu og nýsköpun. Þau snúa að eflingu samfélaga, félagsauðs, atvinnulífs, menntunar, menningar, velferðarmála, samgangna og fjarskipta. Samkvæmt þessari skilgreiningu eru byggðamál viðfangsefni allra ráðuneyta með einhverjum hætti og ná til landsins alls. Því er samtal sem það sem fram fór á fundinum afar mikilvægt til að auka skilning og þátttöku á báða bóga.

 

Fulltrúar SSNV þakka góðan fund og vænta í kjölfarið áframhaldandi góðs samstarfs.