Framúrskarandi verkefni á Norðurlandi vestra árið 2022

Í desember var kallað eftir tilnefningum til framúrskarandi verkefna á árinu 2022 á starfssvæði SSNV. Óskað var eftir tilnefningum í tveimur flokkum.

  1. Verkefni á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar.
  2. Verkefni á sviði menningar.

Fjölmargar tilnefningar bárust og er íbúum á svæðinu þökkuð góð viðbrögð. Á fundi stjórnar var tekin ákvörðun, byggt á tilnefnigu íbúa, um hvaða verkefni fengju viðurkenningu. 

Eftirfarandi verkefni fá viðurkenningar að þessu sinni:

Á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar.

Austan Vatna fyrir vinnslu á matarhandverki. Frumkvöðlarnir á bak við Austan Vatna eru þau Eduardo Montoya og Inga Dóra Þórarinsdóttir á Frostastöðum í Skagafirði. Austan Vatna er lítið fjölskyldurekið fyrirtæki sem framleiðir matarhandverk úr staðbundnu hráefni og tekur einnig að sér veisluþjónustu. Maturinn þeirra er innblásinn af argentískum hefðum, ferðalögum þeirra um Suður-Ameríku og íslenskum mat og matarvenjum. Lögð er mikil áhersla á gæði hráefnis og gott samstarf við bændur í nærumhverfi. Austan Vatna framleiðir allt sem hægt er frá grunni og er stöðugt að leita leiða til þess að nýta hráefnin betur.

Á sviði menningar.

Ós Textíllistamiðstöð hlaut viðurkenningu á sviði menningar fyrir rekstur á miðstöð fyrir textíllistafólk. 

Rekstur Óss textílmiðstöðvarinnar er metnaðarfull og hefur vakið mikla athygli og er þekkt meðal textílfólks víða um heim. Ós hefur verið starfrækt í Kvennaskólanum í samstarfi við Textílmiðstöð Íslands síðan 2013 og er opin allt árið um kring. Þátttakendur eru á fjórða hundrað og dvelja þar minnst mánuð í senn. Ós er ætluð listafólki, fræðafólki og hönnuðum sem vinna með textíl í víðu samhengi, allt frá hefðbundnu handverki, rannsóknum, hönnun hagnýtra hluta og sköpun listaverka til stafræns textíls.  

Boðið er upp á gisti- og vinnuaðstöðu fyrir allt að 13 einstaklinga og gefst þátttakendum tækifæri á að nýta aðstöðuna á staðnum s.s. sameiginleg stúdíórými, vefnaðarloft, litunarstúdió og gallerí. Í hverjum mánuði er boðið upp á fyrirlestur um íslenskan textíl, ullarframleiðslu og stutt námskeið í tóvinnu. 

Einnig hafa listamenn eins og aðrir aðgengi að TextílLabi, stafrænni smiðju á vegum Textílmiðstöðvarinnar sem var opnuð í maí 2021. Síðan hefur aðsókn aukist jafnt og þétt og er Ós með mikla sérstöðu hvað varðar listamiðstöðvar í heiminum vegna þessa. 

Katrín M. Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV og Ólöf Lovísa Jóhannsdóttir, atvinnuráðgjafi á sviði nýsköpunar veittu viðurkenningu fyrir hönd stjórnar í dag. Edu og Inga Dóra tóku viðviðurkenningunni fyrir hönd Austan Vatna og Elsa Arnardóttir forstöðumaður Textílmiðstöðvar Íslands tók við viðurkenningu fyrir hönd Ós Textílmiðstöðvarinnar. 

SSNV óskar þeim til hamingju með viðurkenninguna og verkefnin.