Fjöldi viðburða á Skúnaskralli – barnamenningarhátíð á Norðurlandi vestra

Dagana 14.-24. október verður haldin barnamenningarhátíðin Skúnaskrall á Norðurlandi vestra. Hátíðin er áhersluverkefni sóknaráætlunar landshlutans en hún fékk jafnframt veglegan styrk úr Barnamenningarsjóði og nýtur stuðnings sveitarfélaganna á starfssvæðinu. Hátíðin er vettvangur fyrir menningu fyrir börn, menningu með börnum og menningu skapaða af börnum. Verður þetta í fyrsta skiptið sem hátíð af þessum toga verður haldin á Norðurlandi vestra. Verkefnisstjórar eru Auður Þórhallsdóttir, Ástrós Elísdóttir og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir.

 

Á dögunum var auglýst eftir viðburðum á hátíðina og bárust fjölmargar umsóknir og uppástungur bæði um viðburði sem eiga rætur að rekja til aðila innan svæðis en ekki síður utan svæðis. Þegar hafa verið staðfestir yfir 30 viðburðir og eiga fleiri eftir að bætast við. M.a. mun Íslenski dansflokkurinn sækja hátíðina heim, Þjóðleikhúsið, Hringleikur, Handbendi-brúðuleikhús og margir, margir fleiri.  Haldin verða ýmiskonar námskeið, svo sem trúðanámskeið og söngnámskeið og einnig alls kyns smiðjur, svo sem tröllasmiðja, listasmiðja og sögusmiðja. Lagt er upp með að dreifa viðburðum um Norðurland vestra allt svo börn á svæðinu öllu hafi gott aðgengi að sem flestum tegundum viðburða.

 

Nafn hátíðarinnar hefur vakið nokkra athygli en það vísar í Skagfirðinga og Húnvetninga (SKÚNI) og skrall er dregið af hugmyndinni að skralla eitthvað skemmtilegt saman því það er jú svo sannarlega það sem stendur til að gera.

 

Fylgist með dagskrá viðburða sem verður kynnt innan tíðar á heimasíðu hátíðarinnar https://skunaskrall.is/