33. ársþing SSNV var haldið í Skagafirði 9. apríl sl. Á þinginu voru samþykktar eftirfarandi ályktanir sem hafa verið sendar á viðkomandi ráðuneyti.
Flugþróunarsjóður – áframhaldandi stuðningur
Ársþing SSNV, haldið 9. apríl 2025 í Skagafirði, leggur til að Flugþróunarsjóður verði styrktur og regluverk hans endurskoðað þannig að heimilt verði að veita stuðning lengur en í þrjú ár til að festa nýjar alþjóðaflugleiðir betur í sessi.
Greinargerð: Flugþróunarsjóður hefur hingað til boðið upp á þriggja ára stuðning við nýjar alþjóðaflugleiðir til Akureyrar (AEY) og Egilsstaða (EGS). Þessi stuðningur hefur reynst mikilvægt tæki til að koma á beinu millilandaflugi til Norðurlands, en reynsla sýnir að þrjú ár nægja ekki til að festa slíkt flug í sessi. Ferðaskrifstofur og flugrekendur sem hafa staðið að flugi til AEY frá Evrópu kalla nú eftir áframhaldandi stuðningi. EasyJet hefur m.a. lýst yfir áhyggjum af framhaldi flugsins ef stuðningurinn hverfur að fullu eftir þrjú ár. Samkeppnishæfni leiðarinnar LGW– AEY er góð, en til þess að tryggja áframhaldandi eftirspurn og viðveru á markaði þarf áframhaldandi markaðs- og leiðaþróunarstuðning. Aðrir flugvellir, s.s. Keflavík, bjóða upp á hvatakerfi sem taka mið af lengri tíma og vaxtarmöguleikum. Ársþing SSNV telur því brýnt að gera breytingar á starfsemi Flugþróunarsjóðs og gera honum kleift að veita stuðning til lengri tíma og með meiri sveigjanleika.
Uppbygging Verknámshúss FNV á Sauðárkróki
Ársþing SSNV, haldið 9. apríl 2025 í Skagafirði, skorar á barna- og menntamálaráðherra að hraða framkvæmdum við viðbyggingu verknámshúss Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV), á Sauðárkróki og tryggja að nýtt verknámshúsnæði verði tilbúið til notkunar sem allra fyrst.
Greinargerð: Verknám og starfsmenntun eru lykilþættir í að mæta eftirspurn atvinnulífsins eftir hæfu vinnuafli, en núverandi húsnæði til verknámskennslu við FNV á Sauðárkróki er algjörlega sprungið og getur ekki á nokkurn hátt annað í dag þeirri eftirspurn sem er eftir verknámskennslu við skólann. Öll sveitarfélög á Norðurlandi vestra hafa samþykkt aðkomu sína að viðbyggingunni en hlutur sveitarfélaganna er 40% af byggingarkostnaði. En þrátt fyrir það og að skrifað hafi verið undir samkomulag sveitarfélaga og ríkisins um viðbygginguna þá bólar ekkert á framkvæmdum, en hönnun viðbyggingarinnar liggur fyrir. Ársþing SSNV telur brýnt að tryggja fjármagn ríkisins til þessa mikilvæga verkefnis og að framgangi þess verði hraðað eins og kostur er.
Vegasamgöngur á Norðurlandi vestra
Ársþing SSNV, haldið 9. apríl 2025 í Skagafirði, krefst þess að stjórnvöld hraði uppbyggingu vega á Norðurlandi vestra og tryggi að stofn- og tengivegir í landshlutanum verði færðir upp í forgang í samgönguáætlun ríkisins, með skýrri framkvæmdaáætlun og tryggu fjármagni.
Greinargerð: Vegakerfið á Norðurlandi vestra er víða komið til ára sinna og stendur ekki undir þeirri grunnþjónustu sem íbúar, atvinnulíf og ferðamennska gera kröfur um. Ástand margra vega, sérstaklega á vetrum, er slæmt og veldur bæði ótryggum aðstæðum og hamlar eðlilegum búsetuskilyrðum og atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Fyrir liggur Samgöngu- og innviðaáætlun SSNV samþykkt á ársþingi samtakanna í apríl 2024, þar sem fram kemur sú forgangsröðun vegaframkvæmda í landshlutanum sem sveitarfélögin eru sammála um. Ársþing SSNV minnir á að öruggar og greiðar samgöngur eru grunnforsenda búsetu, menntunar og atvinnuþátttöku. Það er því ekki valkostur að halda áfram að fresta brýnum vegaframkvæmdum í landshlutanum.
A-10 Framlög til verkefna á sviði almenningssamgangna
Ársþing SSNV, haldið 9. apríl 2025 í Skagafirði, skorar á samgöngu- og innviðaráðherra að auka framlög til þróunar almenningssamgangna á milli byggða, enda eru núverandi framlög langt frá því að duga til að byggja upp raunverulegt og aðgengilegt samgöngukerfi fyrir íbúa landsbyggðarinnar.
Greinargerð: Innviðaráðherra hefur nýverið opnað fyrir umsóknir um framlög til verkefna á sviði almenningssamgangna á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar 2022–2036, aðgerð A.10. Markmiðið er að styðja við þróun almenningssamgangna á milli byggða, meðal annars með tengingu við sérakstursþjónustu. Þrátt fyrir góða hugsun að baki aðgerðinni eru einungis 27 milljónir kr. til úthlutunar á landsvísu, sem dugar skammt til að byggja upp þjónustu sem raunverulega mætir þörfum íbúa. Á Norðurlandi vestra eru víða langar vegalengdir á milli byggðakjarna, takmörkuð þjónusta og skortur á samhæfðum almenningssamgöngum. Betri samgöngur geta stutt við menntun, íþróttir, atvinnuþátttöku og félagslegt jafnrétti, og eru einnig mikilvægur þáttur í sjálfbærni og loftslagsmálum. Til að svæðið geti tekið raunveruleg skref í að þróa og samræma almenningssamgöngur, þarf verulega aukið fjármagn og langtímasýn. Ársþing SSNV skorar því á stjórnvöld að fjölga aðgerðum og stórauka fjármagn sem varið er til almenningssamgangna á landsbyggðinni – sérstaklega með tilliti til tenginga milli byggðarlaga og samþættingar við aðra samgönguþjónustu.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550