Föstudaginn 29. ágúst verður haldinn viðburður í Íþróttamiðstöðinni á Blönduósi þar sem Jóhanna Erla Pálmadóttir og börnin hennar afhenda til samfélagsins fullkláraðan refil sem segir sögu Vatnsdæla. Refillinn er afar veglegur; 46 metrar á lengd og 50 sentimetrar á hæð. Saumað var í 9809 klukkustundir og 20 mínútur og urðu saumaskiptin 4.536. Ljóst er að mörg handtökin fjölmargra einstaklinga liggja að baki slíku verki.
Athöfnin hefst kl. 17:00 og er öllum opin en fjöldi gesta hefur boðað komu sína. Auk Loga Einarssonar menningar-, nýsköpunar og háskólaráðherra, má nefna hjón sem koma alla leið frá Ástralíu og franskan prófessor í norrænum fræðum, Jean Renaud. Hann og kona hans stóðu fyrir gerð 22 m langs refils sem sagði sögu Göngu Hrólfs. Nú er hann orðinn harðfullorðinn maður en kemur hingað vegna þessa viðburðar. Frá Danmörku koma kennarar, starfsfólk og fyrrum nemendur Københavns Professionskole, sem eiga það sameiginlegt að hafa tekið þátt í að sauma í refilinn í starfsnámi sínu sem að hluta til hefur verið stundað hér á Blönduósi.
Framundan er söfnun fyrir húsi til að setja reflinn upp til frambúðar og af því tilefni verður við afhendinguna haldið uppboð á 12 uppsettum myndum úr reflinum. Einnig verða fleiri myndir til sölu á staðnum. Hvetur Jóhanna einstaklinga og fyrirtæki til að bjóða í myndirnar og fer hver króna í söfnunarsjóð fyrir húsbyggingunni. Uppboðshaldari verður Gísli Einarsson fréttamaður.
Um refilinn
Hugmyndin að reflinum vaknaði árið 2008 og snerist um að nýta Íslendingasögurnar í útsaumsverkefni og lá þá fyrir að Vatnsdæla yrði tekin fyrst, þar sem sú saga er saga okkar Húnvetninga. Árið 2010 fengu 22 nemendur hönnunar- og arkitektadeildar Listaháskóla Íslands það verkefni að vinna teikningarnar undir stjórn Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur, teiknara og kennara við skólann. Hver nemandi mátti hafa sinn eigin stíl á teikningunum en þeir urðu að vera sögunni trúir.
Fyrstu sporin voru tekin 16. júlí 2011 af frú Vigdísi Ágústsdóttur bónda á Hofi í Vatnsdal og Ingimundi Sigfússyni, fv. sendiherra, á Þingeyrum þar sem talið er að sagan hafi verið skrifuð árið 1270.
Síðasta sporið var svo tekið 24. nóvember 2024 af Eline Schrijver og Jóni Gíslasyni bændum á Hofi.
29. ágúst er valinn vegna þess að eiginmaður Jóhönnu, Gunnar R. Kristjánsson, hefði orðið 68 ára þennan dag, en hann var alla tíð hennar helsti stuðningsmaður í vinnu við refilinn sem og öðrum textílverkefnum.
Að sögn Jóhönnu er refillinn afhentur til samfélagsins sem þökk fyrir uppfóstrið á henni og fjölskyldu hennar og einnig til minningar um Gunnar.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550