12 þátttakendur í Matsjánni af Norðurlandi vestra

Breiðargerði tekur þátt í Matsjánni
Breiðargerði tekur þátt í Matsjánni

Undanfarnar vikur hefur SSNV verið þátttakandi í verkefni á vegum Samtaka smáframleiðenda matvæla (SSFM) og landshlutasamtakanna sem nefnist Matsjá og snýr að því að veita stuðning til matarfrumkvöðla. Rata, ráðgjafafyrirtæki, leiðir verkefnið fyrir hönd samstarfsaðilanna.

 

Samtök smáframleiðenda matvæla sótti um styrk og fékk úthlutað úr Matvælasjóði í verkefnið sem unnið er í samstarfi við landshlutasamtökin. Verkefnið er ætlað smáframleiðeindum matvæla sem vilja efla leiðtogafærni sína, öðlast aukna getu til að þróa vörur og þjónustu og efla tengslanetið sitt í greininni. Matsjáin fer fram á Zoom.

Auglýst var eftir þátttakendum um allt land og sóttu um 80 aðilar um. Þar af eru 12 smáframleiðendur á Norðurlandi vestra en þeir eru: Brjálaða gimbrin, Brúnastaðir Ostavinnsla, Smiðjugrund, Áskaffi góðgæti, Breiðargerði, Hafurð, Nesvargar, Stórhóll beint frá býli, Garðyrkjustöðin Laugarmýri, Kaldakinn, Ásakjöt og Hraun á Skaga. Verkefnið er unnið í 7 lotum yfir 14 vikna tímabil og samanstendur af fræðslufundum aðra hvora viku og heimafundi aðra hvora viku. Unnið er út frá jafningjaráðgjöf, fræðslu, erindum, verkefnavinnu og ráðgjöf. Matsjáin, sem nú er á lokametrunum, hefur heppnast vel og hefur fram til þessa reynst þátttakendum mjög vel. Unnið er með eftirfarandi þætti:

  • Lota 1 – Nýsköpun og skapandi hugsun
  • Lota 2 – Markaðsmál og sala
  • Lota 3 – Ímyndin: Vörumerkið, heimasíðan og umbúðir
  • Lota 4 – Reksturinn og fjármögnun
  • Lota 5 – Stefnumótun og viðskiptaáætlun
  • Lota 6 – Umhverfismál og fullnýting
  • Lota 7 – Tengslanet, sýnileiki og kynningar

Matsjáin snertir á helstu áskorunum sem smáframleiðendur matvæla standa frammi fyrir í dag og meðal ávinninga af þátttöku má nefna að þátttakendur efla fókus í starfsemi og framleiðsluferli, þeir öðlast ný verkfæri og þekkingu, auka leiðtogafærni sína, koma auga á ný viðskiptatækifæri og auka tengslanet og samstarf.

Sveinbjörg Rut Pétursdóttir og Ástrós Elísdóttir stýra verkefninu fyrir hönd SSNV.

Matsjánni lýkur í byrjun apríl með sameiginlegri vinnustofu á Hótel Laugarbakka þar sem þátttakendur hittast, blásið verður til matarmóts og uppskeruhátíðar, auk þess sem þátttakendur fá að kynnast matargrósku á Norðurlandi vestra.