Auglýst eftir tónlistarkennurum í austur-Húnavatnssýslu

Tónlistarskóli Austur-Húnvetninga auglýsir eftir tónlistarkennurum sem geta hafið störf í haust við skólann. Leitað er eftir kennara á tré- og málmblásturshljóðfæri, gítar, bassa og slagverk og þarf hann að vera með tónlistarkennaramenntun eða haldgóða tónlistarmenntun sem nýtist í starfi. Viðkomandi þarf að hafa þekkingu og góða færni á sín hljóðfæri, vera fær í mannlegum samskiptum og hafa ánægju af að vinna með börnum. Þá þarf viðkomandi að vera metnaðarfullur, áreiðanlegur og áhugasamur.

Í auglýsingu frá tónlistarskólanum segir að til greina komi að kennari á blásturshljóðfæri stofni lúðrasveit eða samspilssveit og að skólinn eigi stórt og fjölbreytt safn nótna fyrir lúðrasveit sem og gott úrval hljóðfæra. Hægt sé að búa til 100% stöðu fyrir einstakling sem treystir sér í kennslu á nokkrum sviðum. Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og FÍH/FT.

Nánari upplýsingar: Hugrún Sif Hallgrímsdóttir skólastjóri tónlistarskólans í síma 868 4925 eða á netfanginu tonhun@tonhun.is.

Umsóknarfrestur er til og með 20. apríl næstkomandi. Umsóknir skilist á tonhun@tonhun.is

Tónlistarskóli Austur-Húnvetninga hefur þrjár starfsstöðvar, á Skagaströnd, Blönduósi og Húnavöllum og eru nemendur skólans rúmlega 100. Kennt er á öll helstu hljóðfæri og er gott samstarf milli grunnskóla og tónlistarskóla. Stór hluti nemenda kemur á skólatíma í kennslustundir.