Verklags- og úthlutunarreglur

Hér má nálgast skjalið sem pdf

 

Verklags- og úthlutunarreglur 2017

vegna úthlutunar styrkja úr Uppbyggingarsjóði Sóknaráætlunar Norðurlands vestra 2015-2019

 

Á heimasíðu SSNV:  http://www.ssnv.is/is/uppbyggingarsjodur eru þau gögn er varða umsóknarferli í Uppbyggingarsjóð Norðurlands vestra.

 

1.      Tilgangur: Tilgangur Uppbyggingarsjóðs er að styrkja menningar-, atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni á Norðurlandi vestra.

 

2.   Samkeppnissjóður: Uppbyggingarsjóðurinn er samkeppnissjóður. Umsóknir eru metnar út frá þeim markmiðum og áherslum sem koma fram í Sóknaráætlun Norðurlands vestra 2015-2019 og samningi um Sóknaráætlun Norðurlands vestra sem var undirritaður 10. feb. 2015.

 

3.  Úthlutunarnefnd:  Úthlutunarnefnd er kjörin á ársþingi SSNV til tveggja ára í senn, sbr. 7. gr. samnings um Sóknaráætlun Norðurlands vestra 2015-2019. Nefndin er skipuð 5 mönnum. Ársþing kýs formann og þar að auki tvo nefndarmenn. Formenn fagráða menningar og atvinnuþróunar og nýsköpunar sitja jafnframt í nefndinni. Hlutverki nefndarinnar er  nánar lýst í starfsreglum hennar sem samþykktar voru á ársþingi SSNV 2015.

Þeir sem sitja í úthlutunarnefnd skulu gæta að hæfisreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Berist beiðni um rökstuðning við ákvörðun nefndarinnar ber að fylgja  ákvæðum laga nr. 37/1993.

 

4.      Fagráð: Ársþing SSNV kýs fulltrúa í tvö fagráð til tveggja ára í senn; a) fagráð menningar sem er 5 manna og b) fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar sem er 5 manna. Hlutverki fagráðanna er nánar lýst í starfsreglum þeirra sem samþykktar voru á ársþingi SSNV 2015.

 

5.      Uppbyggingarsjóður Norðurlands vestra styrkir:

a) Verkefni á sviði menningar.

b) Stofn- og rekstrarverkefni á sviði menningarmála.

c) Verkefni á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar.

6.      Umsækjendur: Umsækjendur skulu vera lögráða einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir eða sveitarfélög á Norðurlandi vestra.

Stofnanir, opinber hlutafélög og samtök í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélaga skulu að jafnaði ekki vera leiðandi aðili í verkefnum styrktum af Uppbyggingarsjóði. (8. gr. samnings um Sóknaráætlun Nl. v.)

Styrkir til stofnana, opinberra hlutafélaga og samtaka í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélaga sem eru leiðandi aðilar skulu að hámarki vera sem hér segir:

Vegna verkefna sem tilheyra a) lið 5. greinar: 20% af heildarframlagi til þessa liðar.

Vegna verkefna sem tilheyra b) lið 5. greinar: Ekki styrkhæft

Vegna verkefna sem tilheyra c) lið 5. greinar: 10% af heildarframlagi til þessa liðar.

 

7.    Framkvæmd: Starfsmenn SSNV, í umboði  úthlutunarnefndar, sjá um að auglýsa eftir umsóknum, taka við umsóknum og koma þeim til úthlutunarnefndar. Þegar úthlutun er lokið sjá þeir um dagleg samskipti og eftirfylgni við styrkþega. 

 

8.      Auglýsing:

a)      Á árinu 2017 verður ein aðalúthlutun, með umsóknarfresti til og með 29. nóvember 2016. Heimilt er að auglýsa oftar eftir umsóknum ef ástæða þykir til.

b)      Auglýsa skal eftir umsóknum um styrki á heimasíðu SSNV og sem flestum miðlum á starfssvæði SSNV. Einnig er heimilt að auglýsa utan svæðis.

 

9.      Umsóknir:

Umsóknir skulu vera á eyðublöðum sem eru á heimasíðu SSNV. Í umsókninni skal koma fram hvernig verkefnið styður við markmið Sóknaráætlunar Norðurlands vestra. Einnig skal vera greinargóð lýsing á verkefninu og markmiðum þess, verk- og tímaáætlun, ítarleg fjárhagsáætlun (kostnaðar- og tekjuáætlun) og upplýsingar um umsækjanda/umsækjendur. Upplýsingar í umsókn og öll fylgigögn skulu vera á íslensku. Öll fylgigögn, þar með talið staðfestingar samstarfsaðila, skulu fylgja með umsókninni þegar henni er skilað. Umsóknir og fylgigögn sem berast eftir öðrum leiðum eru ekki tekin gild.

Ársreikningur síðasta árs skal fylgja umsókn, þar sem það á við. Umsóknum skal skilað rafrænt skv. leiðbeiningum á umsóknareyðublaði.

           

10.  Mat á umsóknum:

Allar umsóknir skulu metnar hlutlægt skv. matsblaði sem er fylgiskjal þessara reglna og finna má á heimasíðu SSNV.

 

11.  Styrkir:

a)      Styrkir úr Uppbyggingarsjóði geta numið allt að 50% af áætluðum heildarkostnaði verkefnisins.

b)      Birtur verður opinberlega listi yfir styrkþega, heiti verkefnis og styrkupphæð.

c)      Sé styrkur Uppbyggingarsjóðs lægri en sú upphæð sem sótt var um er umsækjanda heimilt að endurskoða lýsingu verkefnis, verk- og tímaáætlun og fjárhagsáætlun til samræmis við styrkupphæð og skal sú endurskoðun þá vera fylgiskjal með samningi.

 

12.  Samningur: SSNV og styrkþegi gera með sér skriflegan samning sem m.a. kveður á um fyrirkomulag greiðslna, skil á skýrslum og eftirfylgni. Að öðru leyti ber styrkþega að veita SSNV upplýsingar um framkvæmd verkefnisins þegar og ef eftir því er leitað.

 

13.  Framvindu- og lokaskýrslur:

Framvindu- og lokaskýrslur skulu vera á eyðublöðum Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra.

Upplýsingar í framvindu- og lokaskýrslum skulu vera á íslensku.

Skila þarf afriti af fjárhagslegum fylgiskjölum (reikningum) með lokaskýrslu (skönnuðum).

 

14.  Greiðslur styrkja:

a)      Styrkir sem eru ein milljón króna eða lægri: Heimilt er að greiða styrkinn í tvennu lagi. Fyrri hlutinn, allt að 50%, er greiddur við upphaf verkefnisins ef styrkhafi óskar þess. Lokagreiðsla fer fram þegar verkefninu er lokið og styrkhafi hefur skilað fullnægjandi lokaskýrslu.

b)      Styrkir sem eru hærri en ein milljón króna: Við undirritun samnings er heimilt að greiða 30% samningsupphæðar. Heimilt er að greiða allt að 40% styrkupphæðar við skil á framvinduskýrslu og skal þá a.m.k. 70% af verkefninu lokið, skv. kostnaðaráætlun. Lokagreiðsla fer fram að verkefni loknu þegar styrkhafi hefur skilað fullnægjandi lokaskýrslu.

c)      Ef ekkert verður af verkefninu fellur styrkur frá Uppbyggingarsjóði niður. Verði verulegar breytingar á verkefninu, án samþykkis SSNV, er styrkurinn afturkræfur að hluta eða öllu leyti.

  

15.  Vanskil:

a)      Sé styrkhafi í vanskilum með fyrri verkefni er heimilt að fresta greiðslum á nýjum styrk þar til bætt hefur verið úr þeim vanköntum.

b)      Hafi styrkhafi ekki haft samband við viðkomandi starfsmann SSNV innan þriggja mánaða eftir að verkefni á að vera hafið er heimilt að fella styrkinn niður án viðvörunar.

c)      Hafi styrkhafi ekki skilað lokaskýrslu til viðkomandi starfsmanns SSNV innan þriggja mánaða frá því sem segir í samningi er heimilt að fella styrkinn niður án aðvörunar og krefja styrkhafa um endurgreiðslu hafi hann fengið hluta styrksins þegar greiddan.

 

16.  Styrkhæfur kostnaður:

Styrkir úr Uppbyggingarsjóði taka til fjármögnunar styrkhæfs kostnaðar í verkefninu. Eftirfarandi atriði eru til leiðbeiningar um hvað telst til styrkhæfs kostnaðar:  

a)      Laun: Launakostnaður miðist við útborguð laun að viðbættum launatengdum gjöldum. Ekki er heimilt að nota útseldan taxta til útreiknings launa, nema í aðkeyptri þjónustu sjá e) lið.

b)      Vinnuframlag styrkþega og samstarfsaðila: Þrátt fyrir lið a) skal reikna launaða eða ólaunaða vinnu að hámarki á 3.500 kr./klst. Tímaskýrslur skulu haldnar til að sýna fram á hvernig vinnu við verkefnið var háttað.

c)      Ferðakostnaður: Leitast skal við að velja hagkvæmasta ferðamáta hverju sinni.

d)      Aðföng: Gera skal grein fyrir þeim aðföngum sem þarf til verkefnisins. Heimilt er að kaupa sérhæfð tæki sem nauðsynleg eru fyrir framgang verkefnisins. Ef tækin nýtast viðkomandi aðila áfram má reikna allt að 25% af kaupverði þeirra í kostnaðaráætlun í umsókn. 

e)      Aðkeypt þjónusta: Gera þarf grein fyrir aðkeyptri þjónustu í umsókn. Þátttakendur í verkefninu geta ekki fengið greitt fyrir „aðkeypta“ þjónustu.

 

17.  Styrkir úrUppbyggingarsjóði taka ekki til eftirfarandi þátta:

a)      Ekki er veittur styrkur til fjárfestinga í fyrirtækjum né til kaupa á lóð eða húsnæði.

b)      Ekki er veittur styrkur til að kaupa tölvur eða almennan skrifstofubúnað nema þegar um stofn- og rekstrarstyrk er að ræða.

c)      Sá kostnaður sem fallið hefur til árið 2016 eða fyrr, vegna þess verkefnis sem sótt er um, er ekki styrkhæfur.

d)      Ekki er veittur styrkur til almenns rekstrarkostnaðar fyrirtækja í hefðbundinni atvinnustarfsemi.

 

18.  Ábyrgð: Umsækjandi ábyrgist að fullnægjandi leyfi séu fyrir framkvæmd verkefnisins og notkun heimilda ef þarf og ber ábyrgð á öllum þáttum verkefnisins. Umsækjandi ber einnig ábyrgð á að öllum gögnum vegna umsóknar og framvindu verkefnis sé skilað innan tilskilins tímafrests.

 

19.  Minniháttaraðstoð: Með vísan til reglugerðar ESB nr. 1407/2013 um minniháttaraðstoð (de minimis aid) þarf að fylgja með í umsókn yfirlýsing frá umsækjanda um að opinber stuðningur við hann fari ekki yfir 200 þúsund evrur samanlagt yfir hvert þriggja ára tímabil.

 

20.  Trúnaður: Umsækjendum er heitið trúnaði varðandi umsóknir þeirra.

 

21.  Endurskoðun: Verklags- og úthlutunarreglur þessar skulu endurskoðaðar  árlega.