Fundargerð Menningarráðs 24.02.2015

Fundur haldinn í Menningarráði Norðurlands vestra, þriðjudaginn 24. febrúar 2015, kl. 16.00, á Skagaströnd


Mætt: Jóhanna Magnúsdóttir, Adolf H. Berndsen, Sigríður Svavarsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Magnús Eðvaldsson og Ingibergur Guðmundsson menningarfulltrúi.

Dagskrá:

1. Samþykkt stjórnar SSNV Á fundi stjórnar SSN, 17. febrúar sl., var rætt um nýundirritaðan samning um Sóknaráætlun Norðurlands vestra 2015-2019. Í samningnum er m.a. kveðið á um svokallaðan Uppbyggingarsjóð sem sér um úthlutun styrkja til menningarstarfs og atvinnu og nýsköpunar. Eftirfarandi samþykkt var gerð á fundi stjórnarinnar:
Fyrir liggur samningur um sóknaráætlun fyrir Norðurland vestra. Um er að ræða umtalsverða skerðingu frá fyrra ári eða um 7 milljónir króna. Stjórn SSNV gagnrýnir harðlega nýjar úthlutunarreglur sem leiða til skerts fjármagns inn á svæðið. Niðurstaða er ekki í samræmi við þau drög sem kynnt voru á samráðsfundi 5. desember sl.
Stjórn samþykkir eftirfarandi skiptingu fjármuna Uppbyggingarsjóðs fyrir 2015:

Menningarstyrkir 30.000.000.-

Nýsköpun 30.000.000.-

Áhersluverkefni 10.000.000.-
Jafnframt felur stjórn Menningarráði NV að sjá um auglýsingu, mat og tillögur að úthlutun menningarstyrkja fyrir árið 2015.
Framkvæmdastjóra er falið að hefja undirbúning að gerð sóknaráætlunar fyrir árin 2015 til 2019.


2. Drög að úthlutunarreglum, umsóknareyðublaði og samningi við styrkhafa fyrir umsóknar- og úthlutunarferli menningarstyrkja árið 2015.

Í samræmi við samþykkt stjórnar SSNV hóf menningarráðið að undirbúa úthlutunarferli menningarstyrkja fyrir yfirstandandi ár. Fyrir fundinum lágu drög að úthlutunarreglum, umsóknareyðublaði og samningi við styrkhafa. Menningarráð yfirfór gögnin en samþykkti þau svo með nokkrum breytingum. Þau gögn þurfa staðfestingu stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál og verða því send þangað næsta dag. Ekki er hægt að ákveða umsóknarfrest né auglýsa eftir umsóknum fyrr en staðfesting stýrihópsins liggur fyrir. Auglýst verður í sjónvarpsdagskrám, á vefsíðum fjölmiðla og á heimasíðum SSNV og sveitarfélaganna á svæðinu. Dreifibréf með auglýsingu verður einnig sent inn á öll heimili og fyrirtæki á Norðurlandi vestra.

3. Önnur mál. Menningarfulltrúi dreifði tölfræðisamantekt yfir styrki menningarráðs árin 2007-2014.

Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið kl. 17.45.

Ingibergur Guðmundsson

Hér má nálgast fundargerð á PDF.