Verkefnið Hjartað í Húnaþingi vestra hlýtur 10.500.000 milljón króna styrk

Samningur var undirritaður af Katrínu M. Guðjónsdóttur framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna og Unni…
Samningur var undirritaður af Katrínu M. Guðjónsdóttur framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna og Unni Valborgu Hilmarsdóttur sveitastjóra Húnaþings vestra í Félagsheimilinu á Hvammstanga.

SSNV og Húnaþing vestra hafa undirritað samning vegna styrks til uppsetningu tæknimiðstöðvar í anda FabLab smiðju í samfélagsmiðstöð í Félagsheimilinu á Hvammstanga að upphæð 10.500.000 kr. Verkefnið snýst um það að koma upp nýsköpunar, viðgerða og þróunar aðstöðu fyrir íbúa á svæðinu, sem og aðstöðu fyrir félagsstarf. Virkilega spennandi verkefni hjá Húnaþingi vestra sem mun hvetja til nýsköpunar og auka fjölbreytni í atvinnulífi á svæðinu.  

Við hjá SSNV gleðjumst svo sannarlega yfir veittum styrk og óskum sveitarfélaginu til hamingju. 

Innviðaráðherra auglýsti eftir umsóknum um framlög sem veitt eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar vegna verkefna sem tengjast aðgerð C1 eða sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða. Styrkjunum er ætlað að efla byggðir landsins og var úthlutað til sjö landshlutasamtaka sveitarfélaga. 

Sigurður Ingi Jóhannsson þáverandi innviðaráðherra úthlutaði styrkjum til 10 verkefna á landsbyggðinni að upphæð 130 milljónum króna. SSNV sótti um fyrir hönd sveitarfélaga í landshlutanum og hlaut Norðurland vestra 40 milljónir króna í styrk til þriggja verkefna í landshlutanum, FabLab smiðja og aðstaða til nýsköpunar og þróunar í Húnaþingi vestra, samvinnurými á Skagaströnd og tilraunagróðurhús í Húnabyggð. 

Nánari upplýsingar af öðrum styrkveitingum koma á næstu dögum.