Vel heppnaður „Haustdagur ferðaþjónustunnar“

Miðvikudaginn 14. nóvember síðastliðinn var „Haustdagur ferðaþjónustunnar á Norðurlandi vestra“ haldinn í Miðgarði í Skagafirði. Þetta var í þriðja sinn sem viðburðurinn var haldinn, en að honum stendur samstarfsvettvangur Ferðamálafélaganna þriggja á Norðurlandi vestra og SSNV. Á fjórða tug gesta lagði leið sína í Varmahlíð og hlýddi á áhugaverð erindi. Halldór Óli Kjartansson verkefnisstjóri hjá Markaðsstofu Norðurlands greindi frá þeim fjölmörgu boltum sem Markaðsstofan er með á lofti þessa stundina og af nógu að taka þar. Um 50 ferðaþjónustufyrirtæki af Norðurlandi vestra eru á meðal aðildarfyrirtækja Markaðsstofunnar, auk þess sem sveitarfélögin á svæðinu leggja til rekstrarfé. Ásta Kristín Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans ræddi um nýsköpun í ferðaþjónustu og hvernig Ferðaklasinn kemur að hinum ýmsu verkefnum því tengdu. Hún kom einnig inn á verkefnið „Ratsjáin“, sem ráðgert er að keyra á Norðurlandi vestra á nýju ári. Að loknu góðu kaffispjalli gesta og fyrirlesara settu þær Helena Karlsdóttir og Nanna Dröfn Björnsdóttir, lögfræðingar Ferðamálastofu lokapunktinn og greindu frá víðtækum breytingum í lagaumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja, einkum varðandi þær leyfisveitingar sem Ferðamálastofa er ábyrg fyrir. Þar ítrekuðu þær m.a. þá nauðsyn þess, að þeir sem skv. núverandi kerfi hafa leyfi „Ferðaskipuleggjanda“  hugi að sínu nýja og breytta leyfi fyrir 1. mars 2019. Spurningar og umræður í kjölfar erindanna gerðu þetta að líflegum og uppfræðandi eftirmiðdegi. Upptökur af kynningum verða aðgengilegar á Facebooksíðu SSNV innan tíðar, en glærur fyrir lesara má finna í hlekkjum í fréttinni.