Ríflega 40 miljónir í styrk á Norðurland vestra

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur úthlutað styrkjum að upphæð 130 milljónum króna til tíu verkefna á vegum sjö landshlutasamtaka sveitarfélaga. Þar af fékk SSNV þrjá styrki fyrir samtals 40.500.000 kr.

Verkefnin á Norðurlandi vestra sem hlutu styrk eru:

Hjartað í Húnaþingi vestra – tæknismiðja til að hvetja nýsköpun og auka fjölbreytni í atvinnulífi. Uppsetning tæknimiðstöðvar í anda FabLab smiðja í samfélagsmiðstöð í félagsheimilinu á Hvammstanga. Koma á upp aðstöðu til nýsköpunar, viðgerða og þróunar fyrir íbúa, sem og aðstöðu fyrir félagsstarf. Fyrirmynd sótt til Finnlands og Borgundarhólms. Upphæð kr. 10.500.000.

Samvinnurými. Skapa á samvinnurými á Skagaströnd með því að standsetja og markaðssetja húsnæði í eigu sveitarfélagsins, skapa forsendur fyrir léttan iðnað í hluta hússins og aðstöðu fyrir frumkvöðla og minni fyrirtæki í öðrum hluta þess. Húsið var áður fiskvinnsluhús. Upphæð kr. 15.000.000.

Tilraunagróðurhús. Nýta á glatvarma frá gagnaveri Borealis á Blönduósi, reisa tilraunagróðurhús og veita frumkvöðlum aðgengi til að prófa og þróa vöru og gera svæðið þannig eftirsóknarvert fyrir matarfrumkvöðla. Orka einnig tryggð með sólarrafhlöðum. Upphæð kr. 15.000.000.

Full ástæða er til að gleðjast yfir veittum styrkjum og standa vonir til að þeir efli svæðið í heild með bættri aðstöðu fyrir frumkvöðla, íbúa og starfandi fyrirtæki.