Vefráðstefnan "Er vinnustaður bara hugarástand?"

SSNV stóð fyrir vefráðstefnuninni „Er vinnustaður bara hugarástand?“ fimmtudaginn 27. febrúar. Ráðstefnan var hluti af norðurslóðaverkefninu Digi2Market þar sem lagt er upp með að efla dreifðari byggðir með því að nýta stafrænar lausnir almennt. Meðal aðgerða í gildandi byggðaáætlun (aðgerð B.7) er gert ráð fyrir að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024 þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki. Víðsvegar í Reykjavík og einstaka byggðarlögum á landsbyggðum eru starfrækt svokölluð skrifstofusetur (e. Coworking space) þar sem fyrirtæki og einyrkjar leigja sér skrifstofuaðstöðu. Hugtakið er þó mun algengara erlendis en það er hér á Íslandi.

 Ráðuneyti og stofnanir á vegum ríkisins hafa að einhverju leyti byrjað að auglýsa störf án staðsetningar en eins og Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, kom inn á í inngangi sínum „betur má ef duga skal“. Ekki er nóg að fyrirtæki og stofnanir séu opin fyrir flutningi á störfum út á land, samfélögin verða að vera tilbúin til að taka á móti þessu breytta landslagi. Markmið SSNV með ráðstefnunni var að vekja athygli einstaklinga, fyrirtækja, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila á tækifærum skrifstofusetra. Á Akranesi er skrifstofusetur rekið af einstaklingsframtaki þó með stuðningi frá landshlutasamtökum. Í Vestmannaeyjum er Þekkingarsetrið rekið eftir svipaðri forskrift en sá rekstur er tryggður með framlögum á fjárlögum.

Erindi ráðstefnunnar gáfu smá innsýn inn í viðhorf rekstraraðila, yfirmanns starfsmanns sem vinnur fjarvinnu og starfsmanns sem vinnur fjarvinnu. Áhugavert var að heyra af reynslu þessara þriggja aðila og standa vonir til þess að erindin hafi jákvæð áhrif á starfsumhverfi framtíðarinnar.

Hægt er að nálgast upptöku af vefráðstefnuninni hér fyrir neðan og á youtube síðu samtakanna í stærri upplausn.