Réttir Food Festival hefst í dag

Matarhátíðin Réttir Food Festival hefst í dag, 13. ágúst, og stendur fram til 22. ágúst. Um er að ræða tíu daga matarhátíð, þar sem mikið er um dýrðir með fjölbreyttum og skemmtilegum uppákomum. Veitingastaðir og framleiðendur á öllu svæðinu bjóða gestum sínum upp á ógleymanlega upplifun í mat og drykk. Sem mikið landbúnaðar-og sjávarútvegssvæði stendur Norðurland vestra fyrir mikla grósku í framleiðslu á hráefni og staðbundnum vörum. 

Þessa tíu daga verða fjölmargar uppákomur, allt frá Hvammstanga og út í Fljót í Skagafirði. Sjávarborg á Hvammstanga býður upp á þriggja rétta matseðil af sínum vinsælustu réttum, Harbour restaurant and bar á Skagaströnd býður upp á smáréttaplatta og B&S Restaurant á Blönduósi býður upp á fisk úr flóanum. Á vef hátíðarinnar, www.rettir.is er hægt að kynna sé dagskránna og nánari upplýsinga um hátíðina.  

Óhætt er að segja að fjölbreytnin sé mikil og allir ættu að finna eitthvað við hæfi bragðlauka sinna. Hátíðin er styrkt af Uppbyggingarsjóði sóknaráætlunar Norðurlands vestra.