Kick-off fundur í evrópuverkefninu GLOW

Fyrsti fundur í verkefninu Sustainable Green energy technoLogy solutions for tOurism groWth (GLOW) var haldinn 31. janúar 2022. Verkefnið er samstarfsverkefni Ulster University og Irish Central Border Area Network (ICBAN) frá Norður-Írlandi, Udaras Na Gaeltachta og Westbic frá Írlandi, Karelia University of applied science í Finnlandi og SSNV á Íslandi. Samstarfsaðilar unnu einnig saman að verkefninu Digi2market sem tókst með miklum ágætum og gekk samstarfið mjög vel.
Verkefnið snýr að því að hanna grænt viðskiptamódel þar sem unnið verður með litlum og meðalstórum fyrirtækjum í að nýta sér myrkrið sem auðlind í vetrarferðamennsku. Nýta á gagntekningartækni (e. immersive technology) bæði til miðlunar á fyrirbærum næturhiminsins og einnig í markaðssetningu og stækka þannig markaðssvæði fyrirtækjanna. Heildarkostnaður verkefnisins er 81.834 evrur og styrkurinn sem það hlaut er 52.192 evrur.

Verkefnið er svokallað brúarverkefni en það er ætlað sem undirbúningsverkefni fyrir aðalverkefni sem sótt verður um fjármögnun fyrir í áætluninni fyrir 2021-2027. Við hjá SSNV erum spennt fyrir áframhaldandi samstarfi og hlökkum til að takast á við nýtt evrópuverkefni.
Tengiliður SSNV í verkefninu er Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, atvinnuráðgjafi á fyrirtækjasviði hjá SSNV. Hægt er að hafa samband við hana fyrir frekari upplýsingar á netfanginu sveinbjorg@ssnv.is.