Framlög til uppbyggingar ferðamannastaða

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra tilkynntu um úthlutun á rúmlega 722 milljóna króna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til 56 verkefna. Þar af koma rúmar 105 milljónir króna í hlut verkefna á starfssvæði atvinnuþróunarfélagsins til 8 verkefna. Þau verkefni sem um ræðir eru:

 

Kakalaskáli ehf. - Lokaáfangi í uppbyggingu Kakalaskála. Kr. 3.700.000.- styrkur til uppbyggingar Kakalaskála. Um er að ræða hönnun og frágang utandyra, m.a. á bílaplani, við anddyri og bætt aðgengi fyrir fatlaða. Verkefnið felst í nauðsynlegum innviðum fyrir nýjan og vaxandi ferðamannastað, sem hefur vegna sögunnar og útilistaverka í næsta nágrenni mikið aðdráttarafl.

Selasetur Íslands - Selaskoðunarstaður á Flatnefsstöðum Kr. 3.156.750.- styrkur til að byggja upp selaskoðunarstað á Flatnefsstöðum, Vatnsnesi, ásamt gönguleið. Um er að ræða vinnu við deiliskipulag og hönnun á aðkomuvegi, bílastæðum, göngustígum, pöllum o.s.frv. Vatnsnes hefur nýtt sér sérstöðu sína hvað varðar Selaskoðun. Með því að fjölga selaskoðunarstöðum á Vatnsnesi má dreifa álagi ferðaþjónustu á náttúruna. Uppbygging nýs ferðamannastaðar.

Þingeyraklausturskirkja - deiliskipulag - aðkoma , bílastæði og stígakerfi Kr. 2.578.200.- styrkur til að gera deiliskipulag sem nær yfir aðkomu, bílastæði og stígakerfi á kirkjutorfunni við Þingeyrarkirkju og Klausturstofu. Um er að ræða brýnt verkefni sökum aukinnar aðsóknar gesta á þessum merka stað. Áhugaverður staður sem mikilvægt er að skipuleggja vel.

Æðavarp ehf. – Illugastaðir. Kr. 2.765.000.- styrkur til að útbúa göngustíg að smiðjuskeri Natans í tvær áttir, breikka aðkomu ferðamanna að bílastæði og setja upp þrjú skilti sem leiðbeina ferðamanninum um svæðið. Á Illugastöðum er einn besti selaskoðunarstaður landsins, en einnig áhugaverðar söguslóðir. Fyrirhugaðar framkvæmdir eru til þess fallnar að bæta enn frekar aðkomu og aðgengi staðarins.

Blönduósbær – Hrútey, gamla Blöndubrúin frá 1897 gerð að göngubrú. Kr. 32.000.000 .- styrkur til að nota gömlu Blöndubrúna frá 1897 sem göngubrú út í Hrútey og bæta þannig aðgengi að eyjunni og varðveita samtímis elsta samgöngumannvirki á Íslandi. Í þessum 1. áfanga verður brúin sett á sinn stað, gerðir stígar og bílastæði við aðkomu. Hrútey er í eigu Blönduósbæjar og hefur verið samstarf við Skógræktarfélag A-Hún. um opin skóg í eyjunni. Hrútey er náttúruperla Blönduósbæjar og gæti orðið með bættu aðgengi að vinsælum og áhugaverðum ferðamannastað með endurnýtingu sögulegra mannvirkja. Verkefnið er einnig til þess fallið að auka öryggi ferðamanna, bæta aðgengi og stuðla að náttúruvernd.

Húnavatnshreppur - Þrístapar, aðkomusvæði, bílastæði, stígagerð, fræðsluskilti. Kr. 57.000.000.- styrkur til að gera svæðið öruggt og aðgengilegt fyrir ferðamenn, útbúa bílastæði og göngustíg að aftökustaðnum að Þrístapa ásamt svæði með upplýsingaskiltum og fræðslu. Höggstokkurinn og öxin eru varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands en minningarsteinn er á staðnum. Verkefnið er til að auka öryggi á stað sem gæti orðið vinsæll ferðamannastaður. Þar sem deiliskipulag vegna verkefnisins er í vinnslu er lagt til að styrkur verði veittur þegar samþykkt deiliskipulag liggur fyrir og eingöngu ef það hefur tekið gildi fyrir 28. maí 2018. Að öðrum kosti verði verkefnið ekki styrkt, styrkurinn fellur niður án frekari viðvarana og styrkfjárhæðin rennur aftur í sjóðinn til endurúthlutunar.

Húnaþing vestra - Kolugljúfur - bætt aðgengi og öryggi framhald. Kr. 1.600.000.- styrkur til að bæta aðgengis- og öryggismál á viðkvæmu og hættulegu svæði sem er umhverfis gljúfrin. Markmið verkefnisins er að byggja upp fyrsta hluta göngustíga með nauðsynlegum búnaði í samræmi við nýsamþykkt deiliskipulag. Kolugljúfur er einn mikilvægasti ferðamannastaður Norðurlands vestra. Afar mikilvægt er að tryggja vernd náttúru og auka öryggi ferðamanna á þessum stað sem býr yfir hrikalegri náttúru.

Skagabyggð - Kálfshamarsvík sem áfangastaður. Kr. 2.700.000.- styrkur til gerðar í deiliskipulag og hönnunar til uppbyggingar göngustíga. Kálfshamarsvík hefur allt til að bera til að verða mikilvægur ferðamannastaður á frekar fásóttum Skaganum.

Hér má nálgast nánari upplýsingar um úthlutunina ásamt framlögum til þriggja ára verkefnaáætlunar landsáætlunar um uppbyggingu innviða sem gildir fyrir árin 2018 – 2020.