Áhersla á auknar fjárfestingar í landshlutanum hjá nýráðnum starfsmanni SSNV

Magnús Jónsson hefur verið ráðinn í nýtt starf verkefnastjóra hjá SSNV. Hlutverk nýs verkefnisstjóra verður að vinna að því að laða fjárfestingar inn í landshlutann með það fyrir augum að fjölga atvinnutækfærum og auka fjölbreytni þeirra. Starfið er sérstakt áhersluverkefni Sóknaráætlunar landshlutans og er liður í samningi milli SSNV og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem undirritaður var í september 2019. 

 

Magnús er viðskiptafræðingur að mennt, hefur auk þess lokið PMD stjórnendanámi og er vottaður vátryggingafræðingur. Hann hefur víðtæka reynslu af rekstri, markaðsmálum og fjárfestingum sem framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Landsbankans, sérfræðingur í fyrirtækjaviðskiptum, útibússtjóri Landsbankans, umdæmisstjóri VÍS á Norðurlandi og stjórnarmaður nokkurra fyrirtækja. Í störfum sínum hefur hann meðal annars öðlast mikla reynslu á greiningum á fýsileika verkefna sem og áhættugreiningu sem nýtist vel í starfinu.

 

Magnús hefur störf hjá SSNV í lok mars. Við bjóðum hann velkominn til starfa og óskum honum velfarnaðar í starfi.