15 milljón króna styrkur til lagningar vatnslagnar á Laugarbakka

Katrín M. Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri SSNV og Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri í Húnaþingi vestra undirrituðu á dögunum viðaukasamning við sóknaráætlun Norðurlands vestra að upphæð kr. 15.000.000.

Viðaukasamningurinn tekur til verkefnis á grundvelli styrkumsóknar landshlutasamtakanna fyrir hönd Húnaþings vestra um styrkingu innviða á Laugarbakka í Miðfirði til eflingar atvinnustarfsemi. Markmið með verkefninu er uppbygging innviða á Laugarbakka til þess að styrkja búsetu og efla atvinnulíf. Verkefnið snýr að lagningu kaldavatnslagnar frá Hvammstanga til Laugarbakka vegna stækkunar hótels og nýrrar atvinnustarfsemi.

Var það Innviðaráðherra sem auglýsti eftir umsóknum um framlög sem veitt eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022-2036 vegna verkefna sem tengjast aðgerð C.1 Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða.

Tvö önnur verkefni tengd Norðurlandi vestra sem hlutu styrk eru:

Verðmætasköpun á sauðfjárræktarsvæðum. Verkefnið er hvati til nýsköpunar og verðmætasköpunar í strjálbýli sem á mikið undir sauðfjárrækt og miðar að því að tryggja byggðafestu. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Fjórðungssamband Vestfirðinga og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hljóta styrk að upphæð kr. 21.600.000.

Straumhvörf – ný hringrás gesta um Austur- og Norðurland. Um er að ræða samstarf SSA, SSNV, SSNE, áfangastofa Norður- og Austurlands, Austurbrúar og Markaðsstofu Norðurlands um framkvæmd hönnunar- og vörusmiðju nýrrar hringrásar ferðamanna um Austur- og Norðurland í tengslum við beint millilandaflug á Egilsstaði og Akureyri. Styrkur að upphæð 15.650.000 kr.

SSNV óskar styrkhöfum innilega til hamingju!