Starfshópur um framtíðarskipan úrgangsmála tekur til starfa

Eyþing og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra vinna nú sameiginlegt verkefni um framtíðarskipan úrgangsmála á Norðurlandi. Um er að ræða áhersluverkefni fyrir árið 2018 sem nýverið fór af stað. Stofnaður var starfshópur um verkefnið sem í sitja Kristján Þór Magnússon, Norðurþingi, Gunnar I. Birgisson, Fjallabyggð og Einar E. Einarsson, Skagafirði. Með hópnum starfa framkvæmdastjórar SSNV og Eyþings, Unnur Valborg Hilmarsdóttir og Páll Björgvin Guðmundsson.

 

Markmið verkefnisins er að leysa meðhöndlun og förgun úrgangs/ sorps á Norðurlandi með hagkvæmum og umhverfisvænum hætti. Starfshópnum er ætlað að greina mögulegar leiðir til aukins samstarfs sveitarfélaga á Norðurlandi hvað varðar förgun sorps og stilla upp raunhæfum valkostum í þeim efnum með umhverfisvernd, hagkvæmni og skynsamlega nýtingu að leiðarljósi.