SSNV hlýtur styrk til verkefnisins „Nýting glatvarma í hringrásarhagkerfinu“

Verkefnasjóður umhverfis- og auðlindaráðuneytis hefur veitt SSNV styrk að fjárhæð 6 milljónir króna til verkefnisins „Nýting glatvarma í hringrásarhagkerfinu“.

Verkefnið felst í að safna og greina gögn sem nauðsynleg eru til að meta eiginleika glatvarmans sem myndast í gagnaveri Etix Everywhere Borealis á Blönduósi með það að augnamiði að nýta varmann í hringrásarhagkerfinu sem aflvaka fyrir staðbundna matvælavinnslu. Um nokkurt skeið hefur verið vinna í gangi hjá SSNV í að við að finna og greina tækifæri á nýtingu glatvarma á Norðurlandi vestra og umrætt verkefni eitt af þeim.

Um er að ræða 18 mánaða verkefni þar sem markmiðið er að leggja grunn að þróun á tækni til að nýta glatvarma frá gagnaveri til ylræktunar á matvælum og draga þannig úr neysludrifnu kolefnisspori Norðurlands vestra með því að minnka þörfina á innflutningi matvæla og auka fæðuöryggi svæðisins. Verkefnisstjóri verður Hólmfríður Sveinsdóttir frá Merg ráðgjöf ehf. en hún hefur gríðarlega mikla reynslu innan nýsköpunar- og sprotafyrirtækja.

„Þetta er mikil viðurkenning fyrir okkur sem hafa komið að verkefninu og verður skemmtilegt að takast á við. Það eru margir að vinna að þessu verkefni þó svo að SSNV hafi verið í forgrunni í þessari umsókn. Þetta er í raun fyrsta skrefið í mjög stóru verkefni þar sem við erum m.a. að vinna með Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Blönduósbæ, Matís, Merg ráðgjöf, Etix Everywhere Borealis og RISE í Svíþjóð.“ segir Magnús Jónsson, verkefnastjóri fjárfestinga hjá SSNV.

 

Hér má nálgast tilkynningu ráðuneytisins.

 

Kynningarfundur um verkefnið verður haldinn fljótlega, nánar auglýst síðar.