Viðbótarúrræði ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19

Ríkisstjórnin kynnti í gær viðbótarúrræði vegna áhrifa Covid-19 faraldursins á efnahagslíf í landinu. Koma úrræðin til viðbótar við þau sem kynnt voru í mars. Í þessum nýju úrræðum er m.a. að finna þrenn sem gætu nýst litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Norðurlandi vestra.

 

  • Lokunarstyrkir: Rekstrarstyrkir vegna fyrirmæla um lokun starfsemi. Hér er átt við þau fyrirtæki sem skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra var gert að loka, svo sem hárgreiðslustofur, snyrtistofur, líkamsræktarstöðvar o.s.frv. Styrkfjárhæðin er að jafnaði sú sama og rekstrarkostnaður fyrirtækisins á lokunartímabilinu, þ.e. frá 24. mars til og með 3. maí 2020. Styrkur getur þó ekki orðið hærri en 800 þúsund krónur fyrir hvern starfsmann hjá fyrirtæki í febrúar 2020 eða 2,4 milljónir króna á hvert fyrirtæki. Ef fyrirtækið hafði einn starfsmann verður styrkurinn þannig ekki hærri en 800 þúsund krónur, ef fyrirtækið hafði tvo starfsmenn verður hann ekki hærri en 1,6 milljónir króna og ef fyrirtækið hafði þrjá eða fleiri starfsmenn verður hann ekki hærri en 2,4 milljónir króna.
  • Stuðningslán: Rekstrarlán til minni fyrirtækja í lægð vegna faraldursins. Lán að hámarki 6 milljónir að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um tekjur, hlutfall launa af rekstrarkostnaði, skil á opinberum gjöldum o.fl. Ríkið gengur í ábyrgð fyrir lánunum, lánin eru óverðtryggð og vaxtakjör þau sömu og af sjö daga bundnum innlánum lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands hverju sinni.  
  • Tekjuskattsjöfnun: Heimild til að jafna tap þessa árs á móti hagnaði í fyrra

Nánari úfærslur þessarra úrræða hafa ekki verið kynntar en má búast við þeim á allra næstu dögum. SSNV mun miðla þeim upplýsingum á Covid-19 upplýsingasíðu sinni. 

Nánari upplýsingar um þessi úrræði og fleiri sem kynnt voru er að finna hér.