Styrkveiting stjórnar SSNV vegna náms

Stjórn SSNV ákvað á fundi sínum þann 14. janúar sl. að veita Ingva Hrannari Ómarssyni styrk að fjárhæð 1 milljón króna vegna náms hans við Stanford háskóla í Bandaríkjunum. Er styrkurinn tekinn af liðnum Sérstakar styrkveitingar stjórnar í fjárhagsáætlun samtakanna. Á þeim lið hefur stjórn til ráðstöfnunar 1 milljón króna til sérstakra verkefna á árinu og var það mat stjórnar að nám Ingva Hrannars við þessa einu virtustu menntastofnun heims væri vel til þess fallið að styrkja. Mun Ingvi Hrannar halda námskeið um stafrænar lausnir í kennslu fyrir kennara á starfssvæði samtakanna að námi loknu.

 

Ingvi Hrannar leggur nú stund á  framhaldsnám við Stanford Graduate School of Education,  til M.A. gráðu í Learning, Design & Technology (LDT). ​Stanford​ samþykkir aðeins um 4,7% umsókna við skólann sem er af mörgum talinn sá fremsti í heiminum. Sl. 5 ár hefur Ingvi Hrannar starfað sem kennsluráðgjafi í upplýsingatækni, skólaþróun og nýsköpun á fræðslusviði Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Hann hefur verið valinn einn af 100 áhrifamestu  kennurum í heiminum af ​HundrED​ ásamt því að fá viðurkenningu og  hvatningarverðlaun „​Hafðu áhrif​“ árið 2018 fyrir framúrskarandi starf sem kennari sem  vakið hefur athygli á alþjóðavettvangi. Ingvi Hrannar var fyrsti Íslendingurinn til að verða „Distinguished Educator“ hjá Apple og „Certified Innovator“ hjá Google. Undanfarin ár hefur Ingvi Hrannar staðið fyrir ráðstefnunni Utís í Skagafirði þar sem saman koma kennarar alls staðar af landinu og hlýða á fyrirlestra frá aðilum sem fremstir eru í flokki á sviði kennslu, tækni og nýsköpunar bæði hér á landi sem erlendis, auk þess að taka þátt í vinnustofum. Hefur fjöldi þátttakenda á ráðstefnuna verið takmarkaður og hundruðir kennara verið á biðlista um þátttöku. Á árinu 2020 verður Utís sem fyrr haldin í Skagafirði en auk þess verður styttri ráðstefna í Reykjavík til að gefa fleirum kost á að nýta sér þetta einstaka tækifæri til að fræðast. Ingvi Hrannar heldur úti áhugaverðu bloggi ásamt hlaðvarpi um tækni, kennslu og nýsköpun á heimasíðu sinni www.ingvihrannar.com