SSNV og Farskólinn gera samning um stuðning samtakanna við námskeið fyrir bændur

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og Farskólinn – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra hafa gert með sér samkomulag um að SSNV verði bakhjarl námskeiða fyrir bændur sem fyrirhugað er að halda á vegum Farskólans á komandi vetri. Námskeiðin miða að því að veita bændum fræðslu um þróun, fullvinnslu og markaðssetningu afurða í takt við Beint frá býli hugmyndafræðina. Verkefnið er áhersluverkefni sóknaráætlunar Norðurlands vestra frá árinu 2017.

Um er að ræða tvenns konar námskeið. Annars vegar Beint frá býli námskeið sem haldið verður í Húnavatnssýslum og er samskonar námskeið og haldið var í Skagafirði á síðasta vetri og mæltist einkar vel fyrir. Hins vegar er um að ræða námskeiðsröð í fullvinnslu ýmissa afurða, svo sem úrbeiningu a kind og folaldi, hrápylsugerð, kæfugerð, heitreykingu á kjöti, ostagerð o.fl. Alls er fyrirhugað að halda 9 mismunandi námskeið sem hægt er að sækja stök eða alla námskeiðsröðina.

Norðurland vestra er landbúnaðarhérað og mikilvægt að bændur fái stuðning við að vinna að virðisaukningu þeirrar hrávöru sem hér er framleidd. Um slíkt er fjallað í Sóknaráætlun Norðurlands vestra árin 2015-2019. Bæði þessi námskeið sem SSNV gerist nú bakhjarl fyrir uppfylla það skilyrði vel.

Halldór B. Gunnlaugsson er verkefnisstjóri námskeiðanna og segir stuðning samtakanna mikilvægan lið í að geta sett þau saman og eins svo þau megi bjóða þátttakendum á viðráðanlegu verði. Nokkur eftirspurn hefur verið eftir námskeiðum af þessum toga og ljóst að bændur eru í síauknu mæli að leita leiða til að fullvinna afurðir sínar.

Gert er ráð fyrir að námskeiðin hefjist að lokinni sláturtíð.