Samningur um stuðning við hitaveituframkvæmdir í Skagafirði

Á dögunum undirrituðu Aðalsteinn Þorsteinsson forstjóri Byggðastofnunar og Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri SSNV viðaukasamning við Sóknaráætlun Norðurlands vestra vegna Hitaveituvæðingar Óslandshlíðar, Viðvíkusveitar og Hjaltadals.  Styrkurinn á rætur að rekja til stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024 (liður C1) en fer í gegnum farveg Sóknaráætlunar landshlutanna og þar með landshlutasamtökin. Er styrkurinn veittur til undirbúnings þessa mikilvæga verkefnis en ætla má að lagning hitaveitu á þessu svæði muni stórbæta búsetuskilyrði þar.

 

Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar og  Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri SSNV hafa nú undirritað samning vegna verkefnisins og stuðningsins við það. Heildarupphæð styrksins er kr. 5 milljónir.

Umfangsmiklar hitaveituframkvæmdir hafa staðið yfir í Skagafirði undanfarin ár. Það hefur sýnt sig að lagning hitaveitu styrkir búsetuskilyrði og stuðlar að uppbyggingu í hinum dreifðu byggðum. Dæmin sanna að þar sem hitaveita hefur verið lögð í Skagafirði, svo sem á milli Varmahlíðar og Sauðárkróks, í Blönduhlíð og víðar, hefur íbúum fjölgað á ný.  Á því svæði sem styrkurinn er veittur til hefur íbúm fækkað um 33% á síðustu 20 árum og hitaveituvæðingin því einn liður í því stöðva þá þróun.

Á árinu 2018 var í fyrsta sinn veittur stuðningur úr þessum lið byggðaáætlunar. Þá hlaut verkefnið Innviðauppbygging vegna gagnavers á Blönduósi stuðning til fjögurra ára, 2018-2021.  Heildarupphæð stuðningsins við verkefnið var kr. 95 milljónir, 20 milljónir á árinu 2018 en svo 25 milljónir á ári á árunum 2019-2021. Nú eru því 2 verkefni á Norðurlandi vestra sem njóta stuðnings í gegnum þennan lið byggðaáætlunarinnar.

Á myndinni sjást Sigfús og Unnur handsala samkomulagi.