Ný sameiginleg lögreglusamþykkt sveitarfélaga á Norðurlandi vestra

Vinna við gerð nýrrar lögreglusamþykktar hefur staðið yfir um nokkurt skeið. Unnið var uppkast í samráði við lögreglustjóra sem stjórn SSNV yfirfór og samþykkti. Í kjölfarið var samþykktin send sveitarfélögunum og lögreglustjóra til athugasemda. Gerðar voru athugasemdir sem tekið var tillit til og samþykktin því næst send sveitarfélögunum að nýju til staðfestingar. Að því loknu var hún send ráðherra til undirritunar og birtingar.

 

Sameiginleg lögreglusamþykkt mun einfalda störf lögreglunnar í landshlutanum til muna. Gildir hún fyrir sveitarfélögin 7 á starfssvæði SSNV, Akrahrepp, Sveitarfélagið Skagafjörð, Skagabyggð, Skagaströnd, Blönduós, Húnavatnshrepp og Húnaþing vestra.

 

Meðal þess sem ný samþykkt fjallar um eru málefni sem hafa verið áberandi í umræðunni í kjölfar fjölgunar ferðamanna í landshlutanum s.s. hvar heimilt er að gista í tjöldum og sk. ferðavögnum, þ.e. húsbílum og smærri ferðabílum. Nokkuð hefur verið í umræðunni að ferðamenn hafi næturstað óleyfilega á ýmsum stöðum í landshlutanum með tilheyrandi óþrifnaði sem af slíku hlýst og stundum ónæði. Staðreyndin er sú að lang flestir ferðamenn vilja breyta rétt og fara að lögum og reglum þar sem þeir koma. Hins vegar hefur það kannski ekki alltaf verið ljóst hvað má og má ekki í þessum efnum. Ný sameiginleg lögreglusamþykkt gefur bæði þjónustuaðilum, sveitarfélögum og eftirlitsaðilum tækifæri á að koma þessum samræmdu upplýsingum betur til skila til gesta á svæðinu. Gefur það gestum betur kost á að breyta rétt þegar kemur að vali á náttstað sem svo aftur skilar sér í ánægjulegri upplifun. Fagráð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi vestra sem í sitja fulltrúar ferðamálafélaga svæðisins ásamt fulltrúum SSNV hafa látið gera skilti með leiðbeiningum til ferðamanna sem þegar eru komin upp á nokkra staði sem algengt er að ferðamenn hafi náttstað á en ekki er heimilt skv. lögreglusamþykktinni. Á þeim skiltum er jafnframt vísað á næsta tjaldsvæði ferðamanninum til hægðarauka. Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá dæmi um slíkt skilti.

 

Nýja lögreglusamþykkt Norðurlands vestra má finna hér:

https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=d7e3bc07-0c28-47a2-906e-c9c7b9a0ca80