Leitum eftir 10 fyrirtækjum til að taka þátt í stafrænni vegferð - Digi2Market

SSNV er þátttakandi í Norðurslóðaverkefni sem kallast Digi2Market. Verkefninu er ætlað að taka á ýmsum áskorunum sem fyrirtæki á jaðarsvæðum kunna jafnan að glíma við, svo sem smæð markaðar, fjarlægð frá markaði og einangrun.

Verkefnið tekur á atriðum allt frá fyrstu skrefum í stafrænum miðlum að heildstæðri stafrænni tækni (e. immersive technologies), t.d. 360 gráðu myndbönd, aukinn raunveruleika og sýndarveruleika og hvernig nýta megi þessa tækni í markaðssetningu. Markmið verkefnisins er að hjálpa litlum og meðalstórum fyrirtækjum að auka markaðshlutdeild sína og sölu með stafrænni tækni. Með stafrænni tækni er hægt að koma vörumerkinu og sögu fyrirtækisins áleiðis til viðskiptavinanna og aðlaga það að markaðsaðgerðum fyrirtækisins. Þessi tækni getur einnig gefið fólki möguleika á að prófa vöru/þjónustu áður en kaup fara fram.

 

SSNV leitar að 10 fyrirtækjum til að taka þátt í verkefninu. Fyrirtækin sem taka þátt fá

 • aðstoð við að þróa reksturinn áfram í formi ráðgjafar
 • aukna þekkingu á hvernig sjálfbærni getur aukið virði fyrirtækisins/vöru/þjónustu
 • aukin þekking á því hvernig nota má sögu (e.storytelling) í markaðssetningu og auglýsingum
 • reynslu í því hvernig nýta má sýndarveruleika, aukinn veruleika eða 360 gráðu myndbönd í markaðssetningu
 • tækifæri til að tengjast öðrum alþjóðlegum tengiliðum og tengslanetum, fá dæmi um þróunarleiðir hjá öðrum fyrirtækjum, læra af reynslu annarra.

Hvernig fyrirtæki passa best inn í verkefnið?

 • áræðin og framsækin fyrirtæki sem hafa vilja og getu til að þróa núverandi rekstur og markaðssetningu með því að nýta nýja stafræna tækni og hafa sjálfbærni að leiðarljósi
 • fyrirtæki sem vinna með markaðssetningu, samskipti og vilja tileinka sér nýja tækni
 • hvert fyrirtæki verður metið fyrir sig til þátttöku í verkefninu

Hvað er gert með fyrirtækjunum?

 • mat á umhverfismálum fyrirtækisins og greining á umhverfisstöðlum
 • greining á viðskiptamódeli fyrirtækisins með sjálfbærni að leiðarljósi
 • uppbygging á markaðssetningu fyrirtækisins byggð á punktunum að ofan
 • tilraunir með sýndarveruleika/aukinn veruleika/360 gráðu myndbönd og eftirfylgni með árangri þess.

 

Þátttökugjald í verkefnið er 50.000 kr. en áætlað er að virði ráðgjafar/efnisvinnu á hvert fyrirtæki sé um 400-500 þúsund. 

SSNV hefur samið við Tjarnargötuna um ráðgjöf og efnisvinnu. Tjarnargatan muni sinna hugmyndavinnu, hönnun, framleiðslu, birtingarráðgjöf og eftirfylgni vegna mynd- hljóð-, prent- og vefefnis fyrir þátttakendur í verkefninu. Skráningarferstur er til og með 22. janúar 2020.

Frekari upplýsingar ásamt skráningu í verkefnið er hjá Sveinbjörgu Rut Pétursdóttur, atvinnuráðgjafa SSNV, á netfangið sveinbjorg@ssnv.is.