Leiðbeiningar um fjarfundi

Mynd frá Umhverfisstofnun
Mynd frá Umhverfisstofnun

Í ljósi aukins áhuga á fjarfundum undanfarið hefur Umhverfisstofnun útbúið 12 góð ráð fyrir fjarfundi að sænskri fyrirmynd. Þrátt fyrir að aukinn áhugi fyrir þessu fundarformi sé að einhverju leyti sprottinn af áhyggjum um smithættu hafa fjarfundir einnig marga aðra góða kosti, m.a. að auka skilvirkni með því að lágmarka ferðatíma á milli funda ásamt því að minnka koltvíoxíðslosun af völdum ferða.

Fjarfundatækni hefur þróast mikið á undanförnum árum og býður upp á lipurt og nýstárlegt samstarf sem ekki er alltaf mögulegt með hefðbundnu fundarhaldi. Vonast má til að áhuginn á þessari frábæru tækni sé ekki tímabundinn heldu opni augu margra vinnustaða fyrir því að nýta sér þennan möguleika til frambúðar. Auk þess hefur tækni fyrir vefráðstefnur þróast mikið undanfarin ár og þess má geta að SSNV hélt á dögunum sína fyrstu vefráðstefnu sem gekk vonum framar. Þátttakendur á ráðstefnunni voru staðsettir á Hvammstanga, Akranesi, Reykjavík og í Vestmannaeyjum. Á ráðstefnunni var farið yfir tækifæri fyrirtækja, starfsfólks og sveitarfélaga þegar kemur að störfum án staðsetningar.

SSNV býður sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum upp á aðstoð fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í fjarfundum. Hægt er að hafa samband við Sveinbjörgu Rut Pétursdóttur á netfangið sveinbjorg@ssnv.is til að bóka tíma fyrir aðstoð.