Kolefnisspor Norðurlands vestra

Út er komin skýrslan Kolefnisspor Norðurlands vestra sem unnin er af Stefáni Gíslasyni hjá Environice fyrir SSNV. Er skýrslan hluti af áhersluverkefni Sóknaráætlunar Norðurlands vestra árin 2018-2019.

 

Stefán hélt kynningu á fyrstu niðurstöðum á umhverfisráðstefnu SSNV sem haldin var á Húnavöllum þann 28. maí 2019. Megin niðurstöður hafa ekki tekið breytingum frá því að sú kynnig var haldin. Erindi Stefáns er aðgengilegt á facebook síðu SSNV sjá hér: (Sjá hér: https://www.facebook.com/ssnordurlandvestra/videos/302348763976364/  hefst á 10. mínútu upptökunnar).

 

Í kynningu Stefán kom m.a. fram að lang mesta losun á Norðurlandi vestra kemur frá framræstu landi eða tæp 90%. Norðurland vestra er enda eitt mesta landbúnaðarhérað landsins og þarf því ekki að koma á óvart að losun kolefnis sé mest frá þessum þætti. Í skýrslunni kemur fram að endurheimt votlendis á óræktuðum framræstum jarðvegi sé árangursríkasta leiðin til að draga úr losun gróðurhúsategunda á Norðurlandi vestra og má gera ráð fyrir að svo sé á flestum landbúnaðarsvæðum landsins. Varðandi fyrstu skref í endurheimt votlendis nefnir Stefán að þau ættu að felast í því að greina þau svæði sem liggur beinast við að endurheimta, svo sem með tilliti til núverandi notkunar og eignarhalds. Gera þarf grunnrannsóknir á svæðinu til að meta líklegan árangur en hann ræðst af jarðvegsgerð, dýpt, aldri skurða og fleiri þátta. Slík vinna og aðrar aðgerðir til endurheimts votlendis verða að sjálfsögðu aldrei unnar öðruvísi en í góðu samstarfi við landeigendur.

 

Í skýrslunni er einnig bent á leiðir til að minnka kolefnisspor í samgöngum, brennslu metans á urðunarstaðnum í Stekkjarvík, minni orkunotkun í landbúnaði svo fátt eitt sé talið. Til mótvægisaðgerða er talin landgræðsla og skógrækt en til hennar gefast fjölmörg tækifæri á Norðurlandi vestra.

 

Eins og fram kemur í lokaorðum skýrslunnar geta útreikningar á kolefnisspori aldrei orðið 100% réttir eða óvéfengjanlegir. Engu að síður gefa þeir útreikningar sem fram koma í skýrslunni mikilvægar vísvendingar um hvar sé brýnast að grípa til aðgerða og hvaða aðgerðir eru líklegastar til að skila mestum árangri í að minnka kolefnisspor landshlutans.

 

Starfsfólk SSNV mun nú skoða hver næstu skref verkefnissins verða og gera um það tillögu til stjórnar samtakanna.

 

Skýrslu um kolefnisspor Norðurlands vestra er að finna hér.