Góð aðsókn á fund um smávirkjanir

Tæplega 60 manns mættu á kynningarfund um smávirkjanir sem haldinn var á Blönduósi í gær, 30. ágúst, að frumkvæði Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV).

Á fundinum kynnti Bjarki Þórarinsson, frá verkfræðistofunni Mannviti, skýrslu um frumúttekt á mögulegum smávirkjunum á Norðurlandi vestra, sem samin var fyrir SSNV. Í skýrslunni eru taldir upp 82 hugsanlegir virkjunarkostir í landsfjórðungnum og hagkvæmni þeirra metin. Bjarki tók fram að fyrst og fremst hefði skýrslan verið unnin eftir fyrirliggjandi upplýsingum frá ýmsum aðilum, s.s. Orkustofnun og Veðurstofu Íslands, en ekki hefði verið farið í vettvangsferðir á hugsanlega virkjunarstaði. Því væri skýrslan aðeins fyrsta skrefið til að meta hvort virkjun einstakra vatnsfalla væri hagkvæm.

Erla Björk Þorgeirsdóttir, frá Orkustofnun, benti á ýmis leiðbeinandi gögn um smávirkjanir sem eru á heimasíðu Orkustofnunar. Þá greindi hún frá reynslu annarra aðila að byggingu smávirkjana og hvernig stöðlun mannvirkja og tækja gæti lækkaði byggingarkostnað töluvert.

Vignir Sveinsson, bóndi í Höfnum á Skaga, skýrði frá frumúttekt sem gerð hefur verið á því að virkja Langavatnsá á Skaga og nota Langavatn sem miðlunarlón. Uppbyggingarsjóður Norðurlands vestra styrkti úttektina

Tjörvi Bjarnason, frá Bændasamtökum Íslands, var næstur í pontu og sagði frá átakinu Hleðsla í hlaði sem snýr að því að koma upp litlum hleðslustöðvum hjá bændum og ferðaþjónustuaðilum.   

Að lokum kynnti Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, fyrirhugaða styrki til þeirra aðila sem hyggjast kanna betur möguleika á gerð smávirkjana hjá sér.

Horfa má á upptöku af fundinum í heild sinni facebook-síðu SSNV.

Skýrsluna má finna hér.