Fundur með fjárlaganefnd

Stjórn og framkvæmdastjóri SSNV funduðu með fjárlaganefnd Alþingis 22. maí. Á fundinum var farið yfir umsögn samtakanna um þingsályktun um fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024.

Áttu fulltrúar SSNV gott samtal við fjárlaganefndina um áherslur samtakanna sem og áhyggjuefni er fjármálaáætlunina varða. Áhyggjur stjórnar vegna fyrirhugaðrar frystingar framlaga jöfnunarsjóðs bar á góma svo og málefni sýslumannsembætta, almenningssamgöngur, fjármagn til sóknaráætlana og mikilvægi nýsköpunar á landsbyggðinni svo fátt eitt sé talið. Einnig var vakin athygli á góðu starfi í Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra í tenglsum við þá áherslu sem fram kemur í áætluninni að fjölga útskrifuðum úr starfs- og tækninámi en á því sviði hefur skólinn verið í fararbroddi á ýmum sviðum. Áhersla var sömuleiðis lögð á að stutt verði við smærri þéttbýliskjarna við lagningu ljósleiðara sem og að lokið verði við dýrustu og flóknustu tengingarnar í dreifbýli sem enn er ólokið í verkefninu Ísland ljóstengt.   Er þá aðeins drepið á nokkrum þeim þáttum sem til umræðu voru.

Það er mikilvægt fyrir fulltrúa landshlutanna að fá tækifæri til að koma sjónarmiðum landsbyggðanna á framfæri á fundum sem þessum.

Umsögn SSNV um fjármálaáætlun 2020-2024 er að finna hér: https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-5561.pdf