Fulltrúi SSNV á fundi sveitarstjórnarvettvangs EFTA

Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA samstarfinu. Í honum eiga sæti sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Íslandi og Noregi auk tveggja áheyrnarfulltrúa frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands. Landshlutasamtökin eiga fulltrúa í vettvangnum skv. skiptireglu og 2018-2020 á SSNV fulltrúa. Alla jafna eru það formenn landshlutasamtakanna sem sitja fundi vettvangsins.

 

Þorleifur Karl Eggertsson formaður stjórnar SSNV sat fundinn í Hurdal en þar voru til umfjöllunar áhugaverð málefni. Til að mynda samþykkti vettvangurinn ályktun um skýrslu ESB um sjálfbæra Evrópu 2030 þar sem m.a. er lögð áhersla á mikilvægi þátttöku allra stjórnsýslustiga. Fylkisstjóri Buskeruds fylkis sem mun brátt verða hluti af stærsta fylkis Noregs, Viken, sagði frá því hvernig hið nýja fylki mun byggja á heimsmarkmiðunum og OECD-verkefni sem það tekur þátt í, ásamt Kópavogi, og nokkrum stærstu borgum heims eins og Tókýó og Moskvu. Önnur mál á dagskrá voru gervigreind og siðferðileg álitamál henni tengd auk þess sem farið var yfir stöðu mála frá fyrri fundum vettvangsins.