Digi2Market – stafræn leið til markaðar

SSNV er að leita að litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Norðurlandi vestra sem hafa áhuga á að þróa heildstæða stafræna tækni (e. immersive technology) í markaðslegum tilgangi fyrir fyrirtæki sín.

 

Hvað er heildstæð stafræn tækni?

Heildstæð stafræn tækni er meðal annars 360 gráðu myndbönd, aukinn veruleiki og sýndarveruleiki, og er notuð til að skapa einstaka upplifun sem segir sögu fyrirtækis og/eða vöru/þjónustu. Þessi tækni auðveldar samskipti við viðskiptavini og gerir fyrirtækjum kleift að veita viðskiptavinum afþreyingu með nýstárlegum sögum um fyrirtækið, vöruna eða þjónustuna sem fyrirtækið veitir.

 

Hvað getur stafræn tækni gert fyrir fyrirtæki?

Stafrænt umhverfi gerir fólki kleift að kynna sér vörur og þjónustu og hvernig notkunarmöguleikar eru án þess að vera á staðnum. Þetta getur aukið jákvæð samskipti viðskiptavina við fyrirtækið og um leið skapað markaðsefni sem er sniðið að ákveðnum markhópi. Aukið virði vörumerkis skilar sér sjálfkrafa í auknum viðskiptum til lengri tíma ásamt því að það eykur líkurnar á að núverandi viðskiptavinir verði fastakúnnar fyrirtækisins.

Stafræn tækni gefur þar að auki möguleika á að fá nákvæmari og áreiðanlegri greiningar á neytendahegðun, sem hægt er að nýta til að vinna auglýsingaherferðir.

Þekking og geta til að nýta stafræna tækni getur gefið litlum fyrirtækjum tækifæri á að framleiða gott markaðsefni á lægri kostnaði en ella.

 

Digi2Market - Norðurslóðaverkefni

Í fyrsta hluta erum við að leita eftir fyrirtækjum á Norðurlandi vestra sem hafa áhuga og möguleika á að nýta sér stafræna tækni í markaðssetningu.  

 

1.       hluti (Júní 2019 – Október 2019): Fyrsti hluti verkefnisins er að skilgreina og þróa heildstæðar tæknilausnir sem nýta neytendarannsóknir til markaðslausna sem koma til móts við þarfir fyrirtækisins. Markmið fyrsta hluta er að þróa einfaldar og hagkvæmar stafrænar lausnir og prófa virkni þeirra. Jafnframt gefst fyrirtækjum sem taka þátt færi á að vinna með hönnuðum, prófa frumgerðir með viðskiptavinum, og meta þætti sem skipta máli gagnvart væntingum viðskiptavina og markmiðum fyrirtækisins.

SSNV stefnir að þróunarvinnu með allt að 10 fyrirtækjum á svæðinu í að sannreyna hugmyndir, sem svo leiði til ítarlegri niðurstaðna.

 

2.       hluti (Nóvember 2019 – September 2020): Í öðrum hluta verkefnisins verða frumgerðir úr 1. hluta þróaðar áfram í skilgreindar og notendavænar tæknilausnir til að nýta í markaðsstefnu fyrirtækisins.

SSNV stefnir að því að vinna með allt að 3 fyrirtækjum við að þróa þeirra frumgerðir áfram.

 

Áhugasömum er bent á að skrá sig hjá Sveinbjörgu Rut Pétursdóttur, atvinnuráðgjafa SSNV, á sveinbjorg@ssnv.is.

 

Verkefnið er styrkt af Norðurslóðaáætlun 2014-2020.