Bestu búsetuskilyrðin í Skagafirði - Kynning á niðurstöðum íbúakönnunar

Vífill Karlsson hagfræðingur heimsótti á dögunum sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra og kynnti niðurstöður umfangsmikilar íbúakönnunar sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) með Vífil í fararbroddi stóðu að. Haldnar voru þrjár kynningar. Á Hvammstanga þar sem farið var yfir niðurstöður könnunarinnar fyrir V-Húnavatnssýslu, á Blönduósi þar sem farið var yfir niðurstöður fyrir A-Húnavatnssýslu og á Sauðárkróki þar sem farið var yfir niðurstöður fyrir Skagafjörð.

 

Könnunin sem um ræðir var unnin árið 2016 en fyrr á þessu ári kom út ítarleg skýrsla með niðurstöðum fyrir allt landið. Skýrsluna má nálgast hér. Þetta er í fyrsta skiptið sem Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) taka þátt í þessari umfangsmiklu könnun og var þátttakan hluti af áhersluverkefni sóknaráætlunar ársins 2016. Til stendur að vinna samskonar könnun á árinu 2019 og mun SSNV einnig taka þátt í henni. Líkt og 2016 er sú þátttaka hluti af áhersluverkefni sóknaráætlunar.

 

Skagafjörður í fyrsta sæti

Afar ánægjulegt er að sjá að ef horft er til búsetuskilyrðanna sem spurt er um í könnuninni og vegin umsögn um þau bæði hvað stöðuna varðar og mikilvægi þeirra fyrir áframhaldandi búsetu íbúanna kom í ljós að Skagafjarðarsýsla fær hagstæðustu niðurstöðuna af þeim 19 svæðum sem könnunin nær til.

Könnunin inniheldur mjög viðamiklar upplýsingar um stöðu sveitarfélaga með tilliti til búsetuþátta og getur verið mikilvægt tæki sveitarstjórnarmönnum til stuðnings í ákvarðanatöku og stefnumótun.

 

Hér meðfylgjandi eru glærur sem Vífill fór yfir á hverjum stað og sýna þá þætti sem skáru sig úr á hverju svæði fyrir sig.

A-Hún

Skagafjörður

V-Hún

 

Hér er að finna myndband þar sem Vífill fer yfir hvernig lesa á úr niðurstöðum könnunarinnar.