Ályktun stjórnar SSNV um fyrirhugaða frystingu framlaga Jöfnunarsjóðs

Ályktun stjórnar SSNV um fyrirhuguð áform um frystingu framlaga til Jöfnunarsjóðs árin 2020-2021 

Stjórn SSNV harmar þau áform sem fram koma í fjármáláætlun áranna 2020 – 2024 og lúta að frystingu framlaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árunum 2020 og 2021.  

Samkvæmt útreikningum Sambands íslenskra sveitarfélaga mun frystingin hafa mismunandi mikil áhrif á sveitarfélög á landinu, minnst í þeim stærstu en mest í þeim minni. Tekjutap sveitarfélaga á Norðurlandi vestra mun ef þessi áform ná fram að ganga verða næst mest á landinu, eða um 243 milljónir á þessu tveggja ára tímabili.  

Sundurliðun áætlað tekjutaps sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í milljónum talið: 

 

Heimild: Minnisblað Sambands íslenskra sveitarfélaga, Málsnr.: 1901041SA 

Samanburður á áhrifum frystingar framlaga Jöfnunarsjóðs pr. íbúa eftir landshlutum: 

 

Heimild: Minnisblað Sambands íslenskra sveitarfélaga, Málsnr.: 1901041SA 

Sveitarfélög á Norðurlandi vestra hafa á undanförnum árum náð góðum árangri í rekstri og hafa með ráðdeild og hagræðingum náð að lækka skuldahlutfall umtalsvert. Vert er að taka fram að sveitarfélögin skorast síður en svo undan áframhaldandi ráðdeild til að ná sem mestum árangri og vera fær um að veita íbúum sínum sem besta þjónustu en til þess að svo megi verða þurfa tekjustofnar að vera stöðugir og áreiðanlegir.  

Skuldahlutfall sveitarfélaga á Norðurlandi vestra árin 2015-2020: 

 

Þrátt fyrir góðan árangur er skuldahlutfall sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra enn um 100% sem hefur í för með sér nokkurn fjármagnskostnað.  Ljóst er að áhrif frystingar munu miðað við áætlanir sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hafa áhrif á áform sveitarfélaga. Sérstaklega þeirra sem hyggja á enn frekari niðurgreiðslu skulda og jafnvel leiða af sér aukningu á skuldahlutfalli og/eða skerðingu á þjónustu við íbúa hjá þeim sem hyggja á framkvæmdir og mögulega leiða til þess að fallið verður frá nauðsynlegum framkvæmdum.  

Áhrif frystingar framlaga mun því að líkum auka enn á aðstöðumun fámennra og dreifbýlla sveitarfélaga utan þenslusvæða. Það leiðir til þess að á yfirstandandi hagvaxtarskeiði, sem skv. orðum ráðamanna er nær fordæmalaust, munu innviðir þessara fámennari sveitarfélaga líkt og þeirra á Norðurlandi vestra verða lélegri og fjárhagur þeirra lakari. Munu þau því verða enn háðari framlögum Jöfnunarsjóðs sem er á skjön við gildandi byggðaáætlun þar sem áhersla er lögð á þróun sjálfbærra byggða um land allt1. 

Einnig er vert að benda á að það skýtur skökku við að þegar gerð er krafa af hálfu ríkisins að sveitarfélög vinni fjárhagsáætlanir til þriggja ára að fyrirhuguð skerðingaráform séu kynnt án nokkurs samtals og fyrirvaralaust og þannig setji langtímaáætlanir sveitarfélaga úr skorðum.  

Stjórn SSNV skorar á stjórnvöld að falla frá framlögðum áformum um frystingu framlaga Jöfnunarsjóðs á árunum 2020 og 2021 og koma þannig í veg fyrir skerðingu búsetuskilyrða á fámennari svæðum sem af henni munu hljótast.