Verkefnastjóri Sýslumannaráðs - starf án staðsetningar

Dómsmálaráðuneytið f.h. Sýslumannaráðs auglýsir laust til umsóknar starf verkefnastjóra Sýslumannaráðs. Verkefnastjóri verður Sýslumannaráði til stuðnings við framkvæmd verkefna sem ráðinu eru falin með lögum, auk annarra verkefna sem eru sameiginleg öllum sýslumannsembættum. 

 

Helstu verkefni og ábyrgð

 

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 50/2014 um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, tilnefna sýslumenn árlega úr sínum hópi þrjá fulltrúa í Sýslumannaráð. Ráðið hefur það hlutverk að vinna með ráðuneytinu að stefnumótun fyrir sýslumannsembættin í heild og gera tillögur um hvað eina sem getur orðið til úrbóta í störfum sýslumanna eða löggjöf sem um verkefni þeirra gildir. Þá ber ráðinu jafnframt að vinna að sameiginlegum verkefnum sýslumanna og vera til ráðgjafar um þróun starfs- og upplýsingakerfa embættanna, að annast sameiginlega vefsíðu embættanna og stuðla að símenntun og þjálfun starfsmanna þeirra.

Helstu verkefni eru dagleg umsjón og stýring verkefna, þ. á m. umbótaverkefna varðandi samræmingu þjónustu á landsvísu, þátttaka í stafrænum verkefnum og greiningarvinnu, gerð tíma- og verkefnisáætlana, samskipti við starfsmenn sýslumanna og vera tengiliður við ráðuneytið auk annarra verkefna sem verkefnastjóra eru falin til umsjónar.

 

Hæfniskröfur

 

Umsækjendur skulu hafa háskólapróf eða aðra framhaldsmenntun sem nýtist í starfi. Reynsla af verkefnastjórnun er skilyrði. 

Aðrar hæfniskröfur eru:

 • Jákvætt viðmót og færni í mannlegum samskiptum.
 • Fagmennska, frumkvæði og drifkraftur.
 • Reynsla og þekking á verkefna- og gæðastjórnun. 
 • Reynsla í breytingastjórnun.
 • Reynsla af þjónustustjórnun er kostur.
 • Reynsla og þekking á stafrænum verkefnum er kostur.
 • Góð almenn tölvukunnátta. 
 • Góð þekking og/eða reynsla af störfum innan stjórnsýslunnar er kostur.
 • Góð þekking og/eða reynsla af störfum á málefnasviði sýslumanna er kostur
 • Rekstrarþekking og/eða reynsla er kostur.
 • Mjög gott vald á íslensku og ensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti.

 

Frekari upplýsingar um starfið

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hafa gert.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir. Með umsókn skal fylgja ítarleg starfsferilsskrá, starfsheiti og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og hvernig umsækjandi uppfylli hæfniskröfur fyrir starfið.

 

Starfshlutfall er 100%

Umsóknarfrestur er til og með 07.06.2021

Nánari upplýsingar veitir

Guðmundur Bjarni Ragnarsson - gudmundur.ragnarsson@dmr.is - 5459000

Smelltu hér til að sækja um starfið