Gönguleiðir í stafrænu formi

Anton gönguhrólfur á góðum sumardegi
Anton gönguhrólfur á góðum sumardegi

Nú í sumar hefur staðið yfir framhald af verkefni því, sem hófst í fyrrasumar og lýtur að hnitsetningu gönguleiða á Norðurlandi vestra. Eftir að liðlega 30 leiðir voru skráðar í fyrra var nú bætt um betur og eftir sumarið hafa alls 94 leiðir verið skráðar, þ.e.a.s. grunnupplýsingar þeirra: GPS-punktar, myndir og texti, og eru þær nú hýstar á vefsíðunni WIKILOC. Þessi hýsing grunngagna er aðallega hugsuð til að leiðirnar verði aðgengilegar almenningi, en auk fyrirhugaðra upplýsingahluta um gönguleiðir á nýuppgerðri vefsíðu Markaðsstofu Norðurlands hefur Ferðamálastofa einnig hrint af stað verkefni þar sem flestallar gönguleiðir landsins eiga að vera undir. Einnig er í skoðun að gönguleiðirnar verði aðgengilegar hjá fleiri erlendum efnisveitum, sem sérhæfa sig í framsetningu og miðlun efnis til áskrifenda sinna. Þá eru leiðirnar og aðgengilegar á yfirlitskorti á vefsjá SSNV. Fyrirhugað er að skiltamerkingar við upphafspunkt leiðanna sýni QR-kóða, sem fólk getur nýtt til að hlaða leiðirnar upp í síma sína.

Umsjón með hnitsetningunum í sumar hefur Anton Scheel Birgisson haft í sínum höndum, en ekki er þó ofsögum sagt að meira hafi mætt á fótum hans þegar tillit er tekið til þess að Anton hefur lagt að baki alls um 350 km í sumar við verkefnið. Einnig hefur verkefnið notið velvildar gönguhópa á svæðinu bæði í Skagafirði og á Blönduósi, sem og sveitarfélaga sem hafa lagt til leiðir sem hnitsettar höfðu verið á þeirra vegum.

Verkefnið var skilgreint sem eitt af átaksverkefnum í kjölfar Covid 19 og sem slíkt fjármagnað með sérframlagi stjórnvalda í gegnum Uppbyggingasjóð Sóknaráætlunar Norðurlands vestra.