Fundargerð stjórnar 22. ágúst 2017

Hér má nálgast fundargerðina á pdf formi

 

Fundargerð  20. fundar stjórnar SSNV 22. ágúst 2017.

Þriðjudaginn 22. ágúst 2017 kom stjórn SSNV saman til fundar á Skagaströnd og hófst fundurinn kl. 09:30.

Mætt til fundar: Adolf H. Berndsen, Sigríður Svavarsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Elín Jóna Rósinberg, Valgarður Hilmarsson og Björn Líndal Traustason framkvæmdstjóri sem ritaði fundargerð. Stefán Vagn Stefánsson formaður stjórnar setti fundinn og stjórnaði honum.

 

Dagskrá:

 1. Fulltrúi Markaðstofu Norðurlands
 2. Fundargerð 19. stjórnarfundar SSNV dags. 13. júní 2017
 3. Heimsókn stjórnar og starfsmanna til SASS
 4. Fjárhagsupplýsingar janúar – júní 2017
 5. Þjónustukannanir v/ Uppbyggingarsjóðs
 6. Meðferð mála hjá Uppbyggingarsjóði
 7. Samgönguáætlun Norðurlands vestra
 8. Tillaga starfshóps um endurskoðun á framtíðarskipan byggðakvóta
 9. Skýrsla Byggðastofnunar um hagvöxt landshluta
 10. Fundargerðir
 11. Skýrsla framkvæmdastjóra
 12. Önnur mál

  

Afgreiðsla

1.      Fulltrúi Markaðsstofu Norðurlands

Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands mætti til fundar við stjórn og fór hún yfir verkefni MN, stöðu og möguleika landshlutans.

 

2.      Fundargerð 19. stjórnarfundar SSNV dags. 13. júní 2017.

Fundargerðin samþykkt.

 

3.      Heimsókn stjórnar og starfsmanna til SASS

Á síðasta fundi stjórnar kom fram áhugi á að kynnast starfsemi annarra landshlutasamtaka með því að stjórnir og starfsmenn þeirra hittust. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga SASS vilja gjarnan funda með stjórn og starfsmönnum SSNV. Stefnt að fundi þann 29. september.

 

4.      Fjárhagsupplýsingar janúar – júní 2017

Lagðar fram upplýsingar úr bókhaldi samtakanna um reksturinn fyrstu 6 mánuði ársins. Framkvæmdastjóri skýrði upplýsingarnar.

 

5.      Þjónustukannanir v/ Uppbyggingarsjóðs

Starfsmenn hafa framkvæmt kannanir á gæðum þjónustu og ferla við annarsvegar umsóknarferli vegna styrkja og hins vegar vegna þjónustu við þá sem hljóta styrki. Almennt er mikil ánægja með þjónustuna.

 

6.      Meðferð mála hjá Uppbyggingarsjóði

Í einstaka tilfellum sinna styrkþegar ekki skyldum sínum samkvæmt samningum um styrki uppbyggingarsjóðs. Úrræði sjóðsins eru að afturkalla styrk og krefja styrkþega endurgreiðslu þeirrar upphæðar sem greidd hefur verið út. Framkvæmdastjóri lagði fram uppkast að bréfi vegna afturköllunar á styrk og kröfu um endurgreiðslu.

Stjórn samþykkir að afturköllun styrkja og krafa um endurgreiðslu greiddra styrkja sé óhjákvæmileg sinni styrkþegar ekki skyldum sínum samkvæmt gerðum samningum og samþykkir uppkast að bréfi þess efnis sem sbr. fundargögn.

 

7.      Samgönguáætlun Norðurlands vestra

Stjórn samþykkir að leggja áherslu á að staðið verði við núgildandi samgönguáætlun hvað framkvæmdir í landshlutanum snertir en leggur áherslu á að auknir fjármunir verði lagir til samgöngumála í landshlutanum. Stjórn felur framkvæmdastjóra að ganga frá áherslum landshlutans í samræmi við umræður á fundinum.

 

8.      Tillaga starfshóps um endurskoðun á framtíðarskipan byggðkvóta

Lögð fram til kynningar.

Stjórn leggur ríka áherslu á að tillögurnar hljóti brautargengi en mælist til þess að hugað verði að stöðu þeirra byggðarlaga þar sem fiski var ekki landað á viðmiðunartímabilinu en höfðu byggðakvóta s.s. Blönduós.

 

9.      Skýrsla Byggðastofnunar um hagvöxt landshluta

Lögð fram til kynningar

 

10.  Fundargerðir.

Lagðar fram til kynningar:

 

Eyþing fundur stjórnar dags. 14. ágúst 2017

SASS fundur stjórnar dags. 21. júní  2017

SSS fundur stjórnar dags. 14. júní  2017

SSS fundur stjórnar dags. 9. ágúst. 2017

SSH fundur stjórnar dags. 06. júní. 2017

SSV fundur stjórnar dags. 14. júní 2017

FV fundur stjórnar dags. 19. maí 2017

FV fundur stjórnar dags. 21. júní 2017

FV þinggerð 62. Fjórðungsþings

Samband íslenskra sveitarfélaga dags. 30. júní 2017

Stýrihópur Stjórnarráðsins dags. 13. júní 2017

11.  Skýrsla framkvæmdastjóra.

Flutt munnlega á fundinum.

12.  Önnur mál

a)      Staða sauðfjárbænda – samþykkt áskorun til ráðherra landbúnaðarmála og ráðherra byggðamála, sjá viðauka 1

b)      Framkvæmdastjóra falið að skoða möguleika á sameiginlegri lögreglusamþykkt fyrir öll sveitarfélög á Norðurlandi vestra.

 

 

Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið kl. 12:00

 

 

Stefán Vagn Stefánsson (sign.)

 

Adolf H. Berndsen (sign.)

 

Sigríður Svavarsdóttir (sign.)

 

Elín Jóna Rósinberg (sign.)

 

Valgarður Hilmarsson (sign.)

 

Björn Líndal Traustason (sign.)

 

 

 

 

 

 

 

VIÐAUKI 1

 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

 

Jón Gunnarsson

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

 

 

Norðurlandi vestra 22. ágúst 2017

 

Áskorun til ráðherra vegna alvarlegrar stöðu sauðfjárbænda

Enginn landshluti á eins mikið undir sauðfjárbúskap og Norðurland vestra. Í landshlutanum eru 442 sauðfjárbú og um 117 þúsund fjár. Má ætla að auk þeirra 442 bænda sem hafa lifibrauð sitt af sauðfjárbúskap starfi á annað hundrað manns við úrvinnslu afurðanna í landshlutanum. Mikilvægi greinarinnar má t.d. mæla í samhengi við íbúafjölda en um 6 sauðfjárbú á hverja 100 íbúa í landshlutanum. Sá landshluti sem næst kemur er með tæplega 3 sauðfjárbú á hverja 100 íbúa. Að sama skapi er hlutfallið milli fjölda sauðfjár og fjölda íbúa þrefallt hærra á Norðurlandi vestra en í þeim landshluta sem næstur kemur. 

 

 

Heimild: Byggðastofnun (Dreifing sauðfjár)                                                   

Í nýrri skýrslu Byggðastofnunar, Hagvöxtur landshluta 2008 – 2015, kemur fram að hagxöxtur landshlutans hefur ekki haldið í við vöxt annarra svæða. Í skýrslunni segir m.a.: „Hagvöxtur hefur lengi verið lítill á Norðurlandi vestra. Þar var hægur vöxtur á árunum 1998 til 2008, þrátt fyrir uppgang í sjávarútvegi og iðnaði. Ekki hefur orðið mikil breyting þar eftir 2008.“ Kemur þar einnig fram að um 8% framleiðslunnar mælt í verðmæti kemur frá landbúnaði og er það hæsta hutfall landbúnaðar á landsvísu. Aðrir landshlutar framleiða vissulega meira magn en hlutfallslegt mikilvægi greinarinnar er hvergi meira en á Norðurlandi vestra.

 

 

Í skýrslunni er umfjöllun um hvern landshluta fyrir sig. Um Norðurland vestra segir m.a.:

„Í heildina var hagvöxtur minni en að jafnaði utan höfuðborgarsvæðisins. Fyrstu árin var hagvöxtur þokkalegur, en seinni hluta tímabilsins var hann mun minni en í öðrum landshlutum. Mikill vöxtur er í sjávarútvegi. Einkum vex fiskvinnsla síðasta árið sem skoðað er. Annar iðnaður en stóriðja og fiskvinnsla vex líka síðustu árin. Rekstur gististaða og veitingarekstur eflist töluvert undir lok tímabilsins. Umsvif í fjármálum og tryggingum drógust jafnt og þétt saman eftir 2010. Mannvirkjagerð minnkaði um fjórðung á tímabilinu. Heilbrigðisstarfsemi skrapp saman um fjórðung. Fólki fækkar alls staðar í þessum landshluta, nema í strjálbýli. Alls fækkaði íbúum um tæp 5% frá 2008 til 2015.Landbúnaður er mikilvægari atvinnugrein á Norðurlandi vestra en í öðrum landshlutum, að Suðurlandi undanskildu. Þá er hlutur sjávarútvegs minni en annars staðar utan höfuðborgarinnar. Um 9% ársverka eru í landbúnaði, en aðeins 7% í sjávarútvegi. Athygli vekur að opinber þjónusta er stærsta atvinnugreinin, með stærri hluta framleiðslunnar en í öllum öðrum landshlutum. Framleiðsla á mann er hvergi minni en á Norðurlandi vestra. Laun og rekstrarafgangur eru óvíða minni en í landbúnaði og greinar með miklum hagnaði og háum launum eru ekki mjög sterkar hér. Laun á ársverk eru hvergi lægri. Staðgreiðsluverð á húsnæði í sérbýli var að jafnaði 150 þúsund krónur á Sauðárkróki, rúm 70% af landsmeðaltali, en á Blönduósi var það aðeins 97 þúsund krónur, eða tæpur helmingur af landsmeðalverði.“

Af lestri skýrslunnar er ljóst að landbúnaður er mikilvægari á Norðurlandi vestra en í flestum öðrum landshlutum en jafnframt að staða landshlutans er nú þegar afar veik. Í skýrslu Byggðastonfunar um dreifingu sauðfjár kemur það fram með afgerandi hætti að mikilvægi sauðfjárræktar er meira á Norðurlandi vestra en í öllum öðrum landshlutum. 

Ef fram fer sem horfir munu tekjur sauðfjárbænda lækka verulega í haust. Boðað er að þeir fái einungis greitt fyrir um 65% framleiðslunnar þ.e. það magn sem talið er að seljist innanlands og nú virðist möguleikar til útflutnings vera takmarkaðir. Ljóst er því að í greininni er veruleg umframframleiðsla.

Seja má að vandinn sé tvíþættur:

 1. Lækkun á tekjum bænda nú í haust.

 Koma þarf til móts við bændur vegna þeirrar lækkunar sem fyrirsjáanlega verður á tekjum þeirra. Ef til vill má gera það með tilfærslum innan sauðfjársamningsins eða að settur verði upp sérstakur lánaflokkur hjá Byggðastofnun með lágum vöxtum og þannig verði högginu sem lækkun afurðaverðs þessa árs veldur dreift á nokkur ár. Ef tekst að koma böndum á offramleiðslu og birgðavandann ættu bændur að fá greitt fyrir allar afurðir sínar á næsta ári.

 

 1. Umframframleiðsla er 20-25%.

Grípa þarf til aðgerða til fækkunar sauðfjár. Þær þurfa að vera áhugaverðari fyrir eldri bændur en þá yngri svo að eðlileg nýliðun í stéttinni tapist ekki. Landssamband sauðfjárbænda hefur bent á ýmsar áhugaverðar leiðir til fækkunar sauðfjár og eru stjórnvöld hvött til að skoða þær alvarlega.

Birgðavandi verði leystur. Með svo mikilli umframframleiðslu er hætt við að markaðurinn verði lengi að jafna sig og ná ásættanlegu verði, verði ekkert að gert.

 

Af því sem að framan er getið er ljóst að afleiðingarnar af lækkun tekna bænda munu hvergi koma eins illa niður og á Norðurlandi vestra. Í Húnaþingi vestra má t.d. reikna með að tekjur bænda lækki um 145 milljónir króna en þar eru um 100 sauðfjárbú og heildarfjöldi íbúa um 1170. Í Húnavatnshreppi má reikna með að tekjur bænda lækki um 110 milljónir króna en þar eru um 80 sauðfjárbú og um 400 íbúar. Í Skagabyggð munu tekjur líklega lækka um 24 milljónir en þar eru um 22 sauðfjárbú og um 100 íbúar. Gróflega má áætla að tekjur bænda í landshlutanum lækki um 450 milljónir króna. Tekjusamdráturinn svarar til þess að tekjur hvers íbúa landshlutans lækki um ríflega 62 þúsund krónur á ári og á hverja fimm manna fjölskyldu lækki tekjurnar um ríflega 300 þúsund krónur á ári.

Af samtölum við bændur og sláturleyfishafa blasir það við að verði ekkert að gert munu 15 – 20% sauðfjárbænda lenda í alvarlegum greiðsluvandræðum, jafnvel greiðsluþroti, líklega munu einhverjir sláturleyfishafar einnig lenda í greiðsluþroti. Verði sú raunin er hætt við að margt annað láti undan á Norðurlandi vestra.

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra skorar á ráðherra landbúnaðarmála að sjá til þess að málefni sauðfjárbænda verði leyst á farsælan hátt svo að ekki komi til fjöldagjaldþrots í greininni með hörmulegum afleiðingum fyrir alla landsmenn. Íbúar Norðurlands vestra eiga mikið undir að vel takist til.

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra skorar á ráðherra byggðamála að láta málið til sín taka í ljósi þess hve alvarlegar afleiðingar þeirrar stöðu sem uppi er gætu orðið fyrir byggð á Norðurlandi vestra.

 

 

Fyrir hönd stjórnar SSNV

 

__________________________

Björn Líndal Traustason

framkvæmdastjóri