Vel heppnaðar vinnustofur á netinu - Að auka sölu á netinu

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, stóðu fyrir vinnustofum á netinu fimmtudaginn 2. apríl. Efni vinnustofanna var hvernig auka má sölu í gegnum netið. 

Vinnustofurnar voru hluti af verkefninu Digi2Market sem fjármagnað er að hluta til af Norðurslóðaáætlun. Vinnustofurnar fóru fram í gegnum fjarfundaforritið zoom og var streymt á youtube síðu samtakanna.

Yfir 50 fyrirtæki skráðu sig til leiks í gegnum skráningarsíðu fyrir viðburðinn, rúmlega 35 tóku gagnvirkan þátt á zoom og um 68 hafa horft á streymið. Því er vel hægt að halda því fram að viðburðurinn hafi tekist einstaklega vel og hefur SSNV, auk NMÍ, áhuga á að fylgja þessu framtaki eftir með fleiri vinnustofum á netinu. Kallað er eftir ábendingum um efni sem fyrirtæki og einstaklingar í rekstri telja að þörf sé á. Hægt er að senda inn ábendingar og tillögur inn á netfangið ssnv@ssnv.is.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, kynnti möguleika myndvinnslusíðunnar canva.com og fór yfir gagnvirk verkefni sem hægt er að nota í markaðssetningu. Ingi Vífill Guðmundsson, hjá NMÍ, fór yfir virkni og möguleika Instagram og Instastory í markaðssetningu. Selma Dögg Sigurjónsdóttir, hjá NMÍ, ræddi um þróun upplifana í ferðaþjónustu. Aukin áhersla á upplifun getur skapað tækifæri fyrir aukið virði afurða og fór hún yfir 12 skref að því hvernig megi móta og hanna upplifanir. Að lokum voru tvö efni tekin fyrir í formi viðtala. Fyrra viðtalið var við Beate Maria Kury en hún sér um samfélagsmiðla fyrir Kidka. Beate fór yfir reynslu Kidka af því að markaðssetja í gegnum samfélagsmiðla og kom með góð ráð til þátttakenda. Seinna viðtalið var við Óskar Sigmundsson, eiganda og framkvæmdastjóra Marós, en hann hefur áratuga reynslu á því að nýta sögu til að markaðssetja fisk. Óskar kom sömuleiðis með góða punkta til þátttakenda sem huga þarf að í sögutengdri markaðssetningu. Þátttakendur gátu svo spurt spurninga undir erindunum og sömuleiðis þegar viðtölin voru í gangi.

Vinnustofurnar eru aðgengilegar á heimasíðu SSNV og á youtube síðu samtakanna.