Unnur Valborg Hilmarsdóttir ráðin framkvæmdastjóri SSNV

Þann 1. júlí næstkomandi mun Unnur Valborg Hilmarsdóttir taka við starfi framkvæmdastjóra SSNV.

Unnur Valborg hefur áralanga reynslu af rekstri og stjórnun. Sl. ár hefur hún starfað við stjórnendaþjálfun og námskeiðahald, rekstur íbúðagistingar á Hvammstanga, verið framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands, framkvæmdastjóri Dale Carnegie á Íslandi og aðstoðarframkvæmdastjóri Hreyfingar, heilsuræktar. Unnur var oddviti sveitarstjórnar Húnaþings vestra á árunum 2014-2018 og gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir sveitarfélagið á þeim tíma. Hún er einnig formaður Ferðamálaráðs, formaður stjórnar Markaðsstofu Norðurlands og á sæti í skólanefnd Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra.  Unnur er með B.Ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands og Diploma í viðskipta- og rekstrarfræðum frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Hún hefur einnig lokið prófi í Stjórnendamarkþjálfun frá Opna Háskólanum og Coach U.

Eiginmaður Unnar er  Alfreð Alfreðsson húsasmíðameistari og eiga þau 3 börn.