Sturlungaöldin í sviðsljósinu

Áskell Heiðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Sýndarveruleika ehf., og Þorleifur Karl Eggertsson, forma…
Áskell Heiðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Sýndarveruleika ehf., og Þorleifur Karl Eggertsson, formaður stjórnar SSNV.

Á fundi stjórnar SSNV í janúar sl. var samþykkt að veita árlega viðurkenningar fyrir framúrskarandi verkefni sem farið hafa fram á Norðurlandi vestra árið áður. Veittar yrðu viðurkenningar í tveimur flokkum, annars vegar á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar og hins vegar á sviði menningar.

Kallað var eftir tilnefningum íbúa svæðisins um framúrskarandi verkefni og barst alls 31 tilnefning um tuttugu verkefni. Í framhaldi af því valdi stjórnin eitt verkefni úr hvorum flokki til að veita þessar nýju viðurkenningar og voru þær viðurkenningar afhentar á úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra 13. febrúar sl.

 

Verkefnið sem hlaut viðurkenningu sem framúrskarandi verkefni á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar fyrir árið 2019 er sýningin 1238 á Sauðárkróki sem rekin er af fyrirtækinu Sýndarveruleika ehf. Í umsögn stjórnar segir að verkefnið sé „einstaklega metnaðarfullt og til þess fallið að vekja mikla athygli á landsvísu. Um er að ræða fjárfestingu af stærðargráðu sem sjaldan sést í landshlutanum þar sem nýjasta tækni er nýtt til að miðla okkar sterka sagnarfi. Með verkefninu hefur skapast fjöldi starfa auk þess sem til verður mikilvæg afþreying í ferðaþjónustu sem svo mjög hefur skort á.“

 

Sigurður Hansen, María Guðmundsdóttir, Berglind Þorsteinsdóttir og Þorleifur Karl Eggertsson, formaður stjórnar SSNV. Verkefnið sem hlaut viðurkenningu sem framúrskarandi verkefni á sviði menningar árið 2019 er líka tengt sagnaarfinum en það er sýningin um Þórð kakala sem rekin er af Kakalaskála ehf. Í umsögn stjórnar segir að um sé að ræða „verkefni sem hefur vaxið og dafnað undanfarin ár vegna hugsjóna og eldmóðs söguáhugamanns í landshlutanum og fjölskyldu hans. Fyrsta skrefið var verkið Grjótherinn, eitt stærsta útilistaverk landsins, þar sem hver steinn stendur fyrir einn   bardagamann Haugsnesbardaga sem átti sér stað árið 1246. Því næst réðust forsvarsmenn   verkefnisins í að innrétta minkahús sem ekki voru lengur í notkun til að taka á móti gestum og   halda sögustundir. Síðastliðið sumar var svo opnuð þar glæsileg sýning verka eftir 14 listamenn   alls staðar að úr heiminum sem túlka lífshlaup Þórðar Kakala sem forsvarsmaður sýningarinnar   kallar mesta stjórnmálamann allra tíma. Er nú boðið upp á hljóðleiðsögn um sýninguna sem er   einstök á landsvísu og hefur vakið verðskuldaða athygli.“

 

 

 

 

Á meðfylgjandi myndum má annars vegar sjá Áskel Heiðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóra Sýndarveruleika ehf. og hins vegar hjónin Sigurð Hansen og Maríu Guðmundsdóttur, forsvarsmenn Kakalaskála ehf., og tengdadóttur þeirra Berglindi Þorsteinsdóttur taka á móti viðurkenningum fyrir þessi framúrskarandi verkefni. Með þeim á myndunum er Þorleifur Karl Eggertsson, formaður stjórnar SSNV.