SSNV tekur sæti í sveitarstjórnarvettvangi EFTA til tveggja ára

Sveitarstjórnarstigið hefur mikilla hagsmuna að gæta í EES-samstarfinu og því var sveitarstjórnarvettvangur EFTA settur á fót árið 2010. Í honum eiga sæti tólf kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Noregi og Íslandi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands. Meginmarkmiðið með vettvanginum er að tryggja þátttöku sveitarstjórnarmanna í EES-samstarfinu og koma á tengslum við Svæðanefnd ESB en hún er skipuð kjörnum fulltrúum á sveitarstjórnarstigi frá ESB ríkjunum og fjallar um tillögur að evrópskri löggjöf og stefnumótun sem varða sveitarstjórnarstigið. Viðfangsefnin eru af ýmsum toga; fjallað hefur verið um orkunýtni, opinber innkaup, úrgangsmál, mat á umhverfisáhrifum, ríkisaðstoðarmál, lagskipt stjórnkerfi og samstarf við Svæðanefndina svo fátt eitt sé nefnt.

 

Samkvæmt skiptireglu landshlutasamtakanna eiga formenn SSH; SSV; FV; og SSNV að taka við sem aðalfulltrúar á næsta fundi EES EFTA sveitarstjórnarvettvangsins til næstu tveggja ára. Formenn stjórna Landshlutasamtakanna eru fulltrúar á fundum vettvangsins. Næsti fundur  verður haldinn í Brussel 6.-7. desember nk. og mun Þorleifur Karl Eggertsson formaður stjórnar SSNV sitja hann. Er það 18. fundur vettvangsins. Til umræðu verða m.a. málefni sem varða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (Brexit), drög að tillögu um verndun uppljóstrara (whistleblowers), þátttöku sveitarfélaga og landshlutasamtaka í Evrópuverkefnum og það sem helst er á döfinni innan EES.

 

Á myndinni sjást lituð öll löndin sem mynda Evrópska efnahagssvæðið (EES). Grænlituðu löndin (fyrir utan Sviss) mynda EFTA sín á milli en þau bláu eru aðilar að Evrópusambandinu.