Samningur um stuðning við uppbyggingu innviða vegna gagnavers á Blönduósi

Á dögunum undirrituðu ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, Sigurður Ingi Jóhannsson og Þorleifur Karl Eggertsson, formaður stjórnar SSNV, viðaukasamning við Sóknaráætlun Norðurlands vestra vegna Innviðauppbyggingar vegna gagnavers á Blönduósi. Styrkurinn á rætur að rekja til stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024 en fer í gegnum farveg Sóknaráætlunar landshlutanna og þar með landshlutasamtökin. Styrkurinn er veittur til uppbyggingar innviða vegna fyrirhugaðs gagnavers Borealis Data Center við Blönduós. Vegna framkvæmdanna þarf Blönduósbær að ráðast í umfangsmiklar og kostnaðarsamar framkvæmdir. Gera þarf götur og lýsingu, leggja rafmagn, vatns- og fráveitulagnir o.fl.

 

Valdimar O. Hermannsson sveitarstjóri Blönduóssbæjar og Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri SSNV hafa nú undirritað samning vegna verkefnisins og stuðningsins við það. Heildarupphæð styrksins er kr. 95 milljónir, 20 milljónir á árinu 2018 en svo 25 milljónir á ári á árunum 2019-2021.

 

Það verður í senn áhugavert og ánægjulegt að fylgjast með framgangi verkefnisins en reiknað er með að heildarfjöldi starfa sem af því hlýst verði á bilinu 20-30 og því um að ræða mikilvægt atvinnuuppbyggingarmál fyrir Norðurland vestra allt.