Oft var þörf – nú er nauðsyn

Það þarf ekki að hafa mörg orð um ástandið þessa dagana og vikurnar. Eins og Víðir segir þá virkar ekkert í samfélagi okkar nú eins og það virkar alla jafna. Ekki er hægt að segja til um hversu lengi það ástand varir.

Áhrif þess eru og munu verða víðtæk. Starfsemi fjölmargra, ef ekki allra, fyrirtækja og stofnana er skert eða breytt frá því sem áður var. Það eru því fjölmargir sem búa við óvissu, óöryggi og afkomuáhyggjur.

Hér á Norðurlandi vestra starfar fjöldi fyrirtækja sem nú berjast í bökkum, líkt og um allt land, og í raun um alla heim. Það sem gerir svæði eins og okkar frábrugðið mörgum öðrum er hversu miklu máli hvert einasta fyrirtæki hér á svæðinu skiptir okkur, vegna fámennisins og samsetningar atvinnulífsins. Okkur munar um hvert einasta starf. Hvert einasta starf hefur verið, og er, barátta við að koma á legg og halda í. Við verðum að passa upp á þau öll.

Það er því afar mikilvægt að þau okkar, sem nokkur tök hafa á, haldi áfram að kaupa vörur og þjónustu af fyrirtækjunum í heimabyggð (eins og tilmæli almannavarna og sóttvarnarlæknis leyfa að sjálfsögðu). Mörg fyrirtæki á svæðinu, sem ekki gerðu það áður, bjóða nú heimsendingu. Bakarí, matvöruverslanir, veitingastaðir, gjafavöruverslanir, blómaverslanir, handverksfólk, snyrtistofan sem selur snyrtivörur og hárgreiðslustofan sem selur hárvörur svo fátt eitt sé talið. Ég leyfi mér að fullyrða að nær öll fyrirtæki sem selja vörur á Norðurlandi vestra eru tilbúin til að leggja mikið á sig til að koma vörum til viðskiptavina sinna í nærumhverfinu. Það eru líka örugglega fleiri fyrirtæki en þig grunar hér á svæðinu sem eru með vefverslun.

Styddu við þessi fyrirtæki ef þú getur. Pantaðu þér sjampó á hárgreiðslustofunni þinni sem nú verður lokuð í nokkrar vikur. Kauptu þér andlitskrem á snyrtistofunni. Heyrðu í bóndanum sem þú hefur keypt vörur af beint af býli. Verslaðu í matvöruversluninni heima. Pantaðu mat af veitingastaðnum nærri þér. Kauptu blóm í blómabúðinni og sendu vini/vandamanni sem er í einangrun eða sóttkví. O.s.frv. Ef þú mögulega getur.

Með því að gæta hreinlætis, passa upp á tvo metrana, halda okkur heima, hlýða Víði – og versla heima – komumst við í gegnum þetta.

Oft var þörf – nú er nauðsyn. Stöndum saman sem aldrei fyrr og verslum í heimabyggð.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir
framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra