Ný könnun landshlutasamtaka sveitarfélaganna á búsetuskilyrðum og hamingju landsmanna

Vestmannaeyjar, Akureyri og Eyjafjörður eru þau svæði sem best koma út í heildarstigagjöf í nýrri skoðanakönnun meðal íbúa landsins á búsetuskilyrðum, hamingju og viðhorfi til síns sveitarfélags. Að könnuninni stóðu landshlutasamtök sveitarfélaga á landinu ásamt Byggðastofnun og var hún gerð á íslensku, ensku og pólsku í september og október síðastliðnum. Niðurstöðurnar byggja á svörum frá 10.253 þátttakendum. Þetta er í fyrsta sinn sem svo víðtæk könnun um þessi efni nær til allra svæða landsins og er markmiðið að hún verði eftirleiðis gerð á 2-3 ára fresti og geti verið sveitarfélögum og stjórnvöldum mikilvægt tæki í búsetu- og byggðaþróun.

 

Spurt um 40 búsetuþætti

Í könnuninni var landinu skipt upp í 24 svæði og annaðist Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri gerð úrtaks. Að könnuninni og úrvinnslu niðurstaðna unnu Vífill Karlsson, hagfræðingur og ráðgjafi hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og Helga María Pétursdóttir, hagfræðingur og ráðgjafi hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Könnunin byggir á hliðstæðri íbúakönnun sem gerð var árið 2017 en könnunin nú var mun viðameiri, auk þess sem fyrri könnun náði ekki til allra svæða landsins. Á þeim svæðum sem báðar kannanirnar náðu til má í sumum tilfellum sjá viðhorfsbreytingar hjá íbúum á þessu tímabili.Spurt var um 40 atriði sem snerta búsetuskilyrði. Sem dæmi um fjölbreytileika í efnisatriðum má nefna friðsæld, loftgæði, skólamál, atvinnuöryggi, launatekjur, húsnæðismál, nettengingar, vegakerfi, vöruverð, þjónustu við fatlaða og aldraða, rafmagn, ásýnd bæja og sveita, almenningssamgöngur og margt fleira. Efnisatriðin snúa því að samfélagsinnviðum sem og þjónustuþáttum á forræði ríkis og/eða sveitarfélaga.

Samantekt helstu niðurstaðna á Norðurlandi vestra

Íbúasvæði Norðurlands vestra eru þrjú í könnuninni, þ.e. Vestur-Húnavatnssýsla, Austur-Húnavatnssýsla og Skagafjarðarsýsla. Heildarfjöldi svara á Norðurlandi vestra var 809. Íbúar á þessum svæðum voru einnig spurðir í hliðstæðri könnun árið 2017.

 

Viðhorf til sveitarfélags

Af þessum þremur svæðum voru íbúar Vestur-Húnavatnssýslu jákvæðastir í afstöðu til síns sveitarfélags og í samanburði við önnur íbúasvæði eru konur á því svæði jákvæðastar í garð síns sveitarfélags. Neikvæðastir í afstöðu til síns sveitarfélags voru íbúar í AusturHúnavatnssýslu.

 

Búsetuskilyrði

Íbúar í báðum Húnavatnssýslum meta nátturu, friðsæld og loftgæði mikilvægustu og bestu búsetuskilyrðin. Í samanburði við önnur svæði er mesta jákvæðnin einnig hjá Húnvetningum með þjónustu við útlendinga. Vestur-Húnvetningar eru einnig ánægðastir í samanburði við önnur svæði með heilsugæslu og málefni aldraðra. Verst komu Austur-Húnvetningar út í samanburði við önnur búsetusvæði hvað varðar háskóla, laun og menningu. Helsta óánægjuefni Vestur-Húnvetninga í samanburði við önnur svæði er vegakerfið. Skagfirðingar voru jákvæðastir allra í samanburði með málefni fatlaðra og voru einnig ofarlega á lista þeirra jákvæðustu með framhaldsskóla. Aftur á móti reyndust Skagfirðingar meðal þeirra óánægðustu með íbúðaframboð. Í heildarstigagjöf fyrir landsvæðin 24 og þau 40 búsetuskilyrði sem spurt var um var Skagafjarðarsýsla í 4. sæti, Vestur-Húnavatnssýsla í 11. sæti og Austur-Húnavatnssýsla í 20. sæti.

 

Breytingar frá könnun árið 2017

Þegar svör úr könnuninni nú voru borin saman við hliðstæða könnun árið 2017 sjást breytingar á viðhorfi íbúa á Norðurlandi vestra í ýmsum málaflokkum.

Í Vestur-Húnavatnssýslu telja íbúar mikilvægi þjónustu við útlendinga hafa aukist og telja stöðu þess málaflokks einnig hafa batnað mest. Nettengingar telja þeir einnig hafa batnað mikið, sem og framboð leiguíbúða, öryggi, framboð íbúða til sölu, umferð og málefni aldraðra. Sá málaflokkur sem þeir telja að hafi versnað mest frá 2017 er vöruverð og þar á eftir koma tónlistarskólar og framhaldsskólar, sem og almenningssamgöngur sem Vestur-Húnvetningar telja þó ekki jafn mikilvægt málefni og fyrir þremur árum.

Austur-Húnvetningar telja þjónustu við útlendinga hafa batnað mest að gæðum og mikilvægi frá 2017 og þeir telja einnig að unglingastarf, leikskóla- og grunnskólaþjónusta hafi aukist mest að mikilvægi. Sömuleiðis segja þeir mikilvægi vöruverðs fara vaxandi en telja þann þátt líka hafa breyst mest allra til hins verra frá 2017. Þeir telja menningu og almannasamgöngur einnig hafa þróast til verri vegar.

Mesta breyting til batnaðar að mati Skagfirðinga frá könnun 2017 er hvað varðar framboð leiguíbúða, netsamband, heilsugæslu og laun. Þeir telja mikilvægi íbúðaframboðs, leik- og grunnskóla, sem og vegakerfis hafa aukist mest. Aftur á móti telja þeir stöðu menningarmála og almenningssamgangna hafa versnað mest.

 

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.