Leitað er eftir samstarfsaðilum á Íslandi

Skjáskot af heimasíðu í vinnslu
Skjáskot af heimasíðu í vinnslu

Digi2market er samstarfsverkefni Íslands, Írlands, Norður-Írlands og Finnlands sem fjármagnað er að hluta til af Norðurslóðaáætlun. Norðurslóðaáætlun (NPA) er atvinnu- og byggðþróunarsjóður sem er ætlað að stuðla að samstarfsverkefnum sem miða að því að finna lausnir á sameiginlegum viðfangsefnum samstarfslandanna. NPA svæðið samanstendur af norðurhéruðum Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Skotlands, Írlands ásamt Norður-Írlandi, Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SSNV, eru íslenski tengiliðurinn í verkefninu. Sameiginlegar áskoranir þátttakenda í verkefninu eru meðal annars lítill markaður, fjarlægð frá markaði og einangrun fyrirtækja.

 

Markmið verkefnisins er að vinna með litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem sýna áhuga á og sjá sér hag í því að nýta stafræna tækni í markaðssetningu til að auka markaðshlutdeild sína, hvort heldur sem er að auka sölu á núverandi markaði eða ef ætlunin er að sækja inn á nýja markaði hérlendis eða erlendis. Hér er sérstaklega horft til 360° mynda og myndbanda, aukins veruleika og sýndarveruleika.

 

SSNV hefur staðið fyrir viðburðum sem tengjast stafrænni tækni, stafrænni markaðssetningu og skrifstofusetrum í tengslum við verkefnið. Má þar meðal annars nefna vinnustofu í notkun canva og instagram, og vefráðstefnu um skrifstofusetur (e. Digital hubs) sem fram fóru á netinu. Lagt er upp með að þau skrifstofusetur sem taka þátt í verkefninu geti stuðlað að alþjóðlegu tengslaneti milli fyrirtækja og samfélaga.

 

Hafin er vinna við heimasíðu sem ætluð er að nýtist sem vettvangur fyrir tengslamyndun fyrirtækja og samstarf milli landa auk þess að veita fyrirtækjum aðgang að þekkingu og upplýsingum sem gæti aukið markaðshlutdeild þeirra á núverandi og tilvonandi mörkuðum. Tilgangur heimasíðunnar er að veita fyrirtækjum stuðning við notkun á stafrænum lausnum við markaðssetningu, veita stuðning við þróun á grænum og umhverfisvænum lausnum, auðvelda aðgengi að alþjóðlegu tengslaneti, og veita stuðning við þróun á útflutningsmörkuðum. Heimasíðan mun bjóða fyrirtækjum og öðrum samstarfsaðilum að skrá sig með prófíl á síðunni til að verða sýnilegri gagnvart mögulegum samstarfsaðilum hérlendis og erlendis.

 

SSNV leitar eftir samstarfsaðilum á Íslandi sem hafa áhuga á að tengjast inn í verkefnið með sýnileika á heimasíðu og gætu mögulega komið að verkefninu sem tengiliður/ráðgjafi við innlend eða erlend fyrirtæki ef til þess kæmi á síðari stigum. Samstarfsaðilar geta verið fyrirtæki eða einstaklingar sem veita ráðgjöf til fyrirtækja í rekstri, t.d. í atvinnuþróun eða nýsköpun. Ekkert gjald er tekið fyrir að skrá prófíl á heimasíðu verkefnisins. Áhugasömum einstaklingum og fyrirtækjum er bent á að hafa samband við Sveinbjörgu Rut Pétursdóttur, atvinnuráðgjafa hjá SSNV á sveinbjorg@ssnv.is og í síma 866-5390, fyrir nánari upplýsingar og skráningu á samstarfsaðilum.